Home Fréttir Í fréttum Fimmfalt fleiri útskrifast úr háskóla en iðnnámi

Fimmfalt fleiri útskrifast úr háskóla en iðnnámi

85
0
Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Mikill munur er hér á landi milli fjölda útskrifaðra nema úr bóklegu háskólanámi annars vegar og verk- og iðnnámi hins vegar. Ísland sker sig nokkuð úr hvað þetta varðar í samanburði við nágrannalöndin og ástæðurnar virðast margþættar. Nærri fimmfalt fleiri hafa útskrifast úr háskólanámi á árinu en úr iðnnámi.

Á fjórða þúsund nemendur voru brautskráðir frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst í gær, 19. júní, og er fjöldinn  sem nemur tæplega einu prósenti þjóðarinnar. Met var sett í fjölda brautskráðra í tveimur fyrstnefndu skólunum.

<>

Alls útskrifuðust um 700 nemendur frá Tækniskólanum og verkmenntaskólum landið um kring á undanförnum vikum og hlutfallið því nálega 5 á móti 1; fimm sem útskrifast úr bóklegu háskólanámi á móti hverjum nemanda sem lýkur verk- eða iðnnámi af einhverju tagi.

Vantar fleiri sem hafa verkþekkinguna

Almennt er það viðtekin skoðun að undirstaða farsæls efnahagslífs sé fólgin í vel menntuðu og hæfu starfsfólki þar sem fjölbreyttri verklegri og fræðilegri færni sé til að dreifa. Ætla má að svo ójafnt hlutfall milli útskrifaðra nemenda í bóknámi annars vegar og verknámi hins vegar sem framar greinir sé nokkuð á skjön við þessa sýn.

„Nú get ég ekki fullyrt út frá akkúrat þessum tölum, en það er samt alveg ljóst og það hafa hinar ýmsu skýrslur sýnt fram á að það er ákveðið færnimisræmi [hér á landi] og það vanti fleiri sem hafi verkþekkinguna,“ segir Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, sem útskrifaði 477 nemendur alls í maí síðastliðnum.

„Ég skal ekkert fullyrða um að séu of margir sem fara í háskóla, það er öll menntun af hinu góða. En Það er samt alveg ljóst að á Íslandi þyrftu fleiri að fara í starfsnám, hvort sem þeir svo héldu áfram og færu í háskólanám eða ekki.“

Mynd: Sturla Skúlason – RÚV

Fjárveitingar duga engan veginn til

Að sögn Hildar hefur mikið starf verið unnið síðastliðin ár til eflingar og kynningar á iðnnámi og sér hún mikinn árangur þar á, bæði í Tækniskólanum og fleiri skólum. „Þeim er að fjölga sem sækja ungir um hjá okkur og koma beint úr grunnskóla, og það er frábært.

En það verður á kostnað þeirra sem eldri eru. Þannig að þó svo fjárveitingar hafi verið auknar að einhverju leyti þá dugar það engan veginn til þess að mæta verulega aukinni eftirspurn því þeir sem yngri eru fylla plássin. Við erum því í talsvert miklum vanda með þá sem komnir eru yfir tvítugt, í sumar greinar.“ Hún segir kerfið einfaldlega ekki tilbúið fyrir þessa verulegu auknu aðsókn í starfsnám, hvorki hvað fjárveitingar né húsnæði varðar.

Tækifæri til betrumbóta í grunnskólakerfinu

Þegar talið berst að aukinni kynningu á verk- og iðnnámi þegar á grunnskólaaldri segir Hildur að þar séu til staðar gríðarleg tækifæri til betrumbóta. „Það þyrfti að leggja miklu meiri áherslu á verk- og tæknigreinar í grunnskólum, og sérstaklega þarf að auka vægi þeirra þegar líður á námið. Ef viðmiðunarstundaskrá grunnskóla er skoðuð þá fer mun meira fyrir verknámi á yngri árunum. Þegar börnin koma upp á gagnfræðaskólastig þá dregur verulega úr. Það er þá sem krakkarnir eru að móta með sér hvað þau vilja gera í framtíðinni.“

Þetta þýðir að mati Hildar að börnin fái of litla snertingu við iðngreinarnar á mikilvægum tímapunkti á meðan kerfið keppist við að gera þeim ljóst mikilvægi stærðfræði, íslensku, ensku og svo framvegis, og vísar þeim þannig áfram í bóknámið. „Það er erfitt að velja eitthvað sem þú veist ekkert hvað er.“

Viðhorf til verknáms eru að breytast

Löngum hefur ein stærsta hindrunin fyrir aðsókn í iðngreinar verið rótgróin viðhorf þar sem verk- og iðnnám er ekki metið að verðleikum og jafnvel litið svo á að greinarnar séu fyrir þá sem ráði ekki við bóknámið. Hildur segir að þessi viðhorf séu blessunarlega að breytast til batnaðar.

„Það finnum við mjög vel í okkar skóla. Viðhorf foreldra og samfélagsins í heild eru að taka töluverðum breytingum. Fyrir bragðið fáum við til okkar nemendur sem eru mjög flinkir á bókina en hafa einfaldlega mestan áhuga á því að leggja stund á handverk af einhverju tagi.“

Hættum að tala um verknám eða bóknám

Engu að síður segir Hildur að á yngri árum grunnskólans verði að breyta nálguninni og það sé bara ákvörðun sem þurfi að taka. „Tökum sem dæmi foreldraviðtal. Þar á líka alltaf að ræða færni barnsins í hinum ýmsu verklegu verkefnum. Það er alltaf mikil áhersla á lesturinn, stærðfræðina og svo framvegis en þarna strax þarf að gera verkgreinarnar áþreifanlegri og sjá til þess að þær séu líka til umræðu.

Ég sé fyrir mér að þær séu hreinlega tvinnaðar saman við bóklegu greinarnar. Þetta á ekki að snúast um verknám eða bóknám. Þetta á bara að vera nám. Nám til að byggja upp bestu færni fyrir okkar samfélag.“

Erum eftirbátar nágrannalanda

Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar, segir það slæmt að lengi hafi verið örðugt að fá inni í skólunum sem kenna verk- og iðngreinar, sama hver skólinn sé. Vísa hafi þurft fólki frá á síðasta ári, til að mynda. „Við höfum verulegar áhyggjur af því hvað það eru fá pláss fyrir nema í iðngreinum þrátt fyrir viðleitni í þá átt að fjölga þeim. En það gefur augaleið að þegar hlutföllin eru fimm á móti einum eins og hér á landi er, á meðan í löndunum sem við berum okkur alla jafna helst við eru um 40% útskrifaðra nemenda iðnmenntaðir og verklærðir, þá er þróunin ekki góð.“

Fólk kemst ekki að í skólana

„Ég held að allar ríkisstjórnir sem ég man eftir hafi lofað því að efla iðn- og verkgreinar en við erum ekki að sjá þá fjölgun sem við hefðum viljað sjá í okkar greinum,“ segir Hilmar. „Það er því veruleg vöntun á plássum í iðngreinar.“ Hann segir hluta skýringarinnar vera fólgna í þjóðarsálinni þar sem oft er fyrst og fremst horft í bóknámsgreinar. Launakjör iðnmenntaðra séu alltént ekki skýring þar á. „En svo mætti nú alveg hlúa betur að iðnskólunum, því mikið af tækjum og tólum þar eru orðin býsna gömul.“ Hann segir námið gott. Vandinn felist í því að fólk kemst einfaldlega ekki að.

Átaks er þörf í iðngreinum

Hilmar segir að átak þurfi einfaldlega til ef Ísland ætlar ekki að verða eftirbátur nágranna- og viðmiðunarþjóða þegar kemur að því að mennta iðn- og verkmenntað fólk. „Hið opinbera verður í auknum mæli að brýna fyrir fólki að skoða og leggja fyrir sig iðnnám. Störfin eru vel launuð og atvinna er stöðug. Ég skil bara ekki af hverju það eru ekki settir verulegir peningar í að byggja nýja skóla og fjölga plássum í boði. Þannig gerum við þetta að eftirsóknarverðu námi.“

Stórauka kynningu verknáms í grunnskólum

Hilmar tekur undir með Hildi að kynningarstarf í grunnskólum landsins sé lykilatriði í því að efla enn frekar veg verknáms hér á landi. „Ég tel að búið sé að þurrka hálfpartinn allt handverk úr grunnskólum. Það eru jú enn kenndar smíðar og hannyrðir en það er ekki eins mikið og áður var. Ég myndi vilja sjá staðið myndarlega að þessu kynningarstarfi og í því sambandi mætti hugsa sér færanlegar kennslustofur sem flytja mætti milli grunnskóla og halda þannig góðar kynningar á þessu námi.“

Heimild: Ruv.is