Home Fréttir Í fréttum 1,7 milljarða tap og nýr forstjóri hjá ÍAV

1,7 milljarða tap og nýr forstjóri hjá ÍAV

665
0
Sigurður R. Ragnarsson, stjórnarformaður ÍAV. Eva Björk Ægisdóttir

Þóroddur Ottesen Arnarson fjármálastjóri hefur tekið við sem forstjóri ÍAV og Sigurður Ragnarsson er starfandi stjórnarformaður.

Íslenskir aðalverktakar, ÍAV, töpuðu 1,7 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 6 milljóna hagnað árið áður. Tekjur drógust saman um 13,5% milli ára og námu 15,3 milljörðum króna, samkvæmt ársreikningi.

Í skýrslu stjórnar segir að áhrifa COVID-19 gætti á rekstur félagsins á árinu. Tekjusamdráttur og ófyrirséður aukinn kostnaður „t.d. vegna fjarveru starfsmanna í sóttkví og einangrun“ hafði áhrif á afkomu ársins. Einnig voru seinkanir á afhendingu á byggingarefni á verkstöðum vegna faraldursins.

Eigið fé ÍAV jókst um 471 milljón milli ára og nam 1,5 milljörðum króna í árslok 2020 en fram kemur að hluti skulda félagsins við hluthafa hafi verið umbreytt í hlutafé. Skuldir lækkuðu um 770 milljónir og voru 2,8 milljarðar króna í lok árs.

Tjón af völdum riftunar 105 Miðborgar á verksamningi um uppbyggingu á Kirkjusandi fyrr í ár er sagt verulegt, bæði vegna verkkostnaðar sem ekki hefur fengist greiddur og einnig vegna þess orðspors sem félagið hafi byggt upp í áratugi.

Þóroddur Ottesen Arnarson fjármálastjóri hefur tekið við sem forstjóri ÍAV af Sigurði Ragnarssyni en í lok síðasta árs var ákveðið að hann yrði starfandi stjórnarformaður félagsins, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Sigurður mun því áfram taka virkan þátt í rekstri félagsins.

Heimild: Vb.is