Home Fréttir Í fréttum Látrabjarg – endurnýjun stíga á Bjargtöngum

Látrabjarg – endurnýjun stíga á Bjargtöngum

223
0

Nýverið hófust framkvæmdir við endurbætur stíga út á Bjargtöngum við Látrabjarg. Verkið felst í bæta núverandi stíga svo þeir geti tekið á móti þeim aukna ferðamannstraumi sem leggur leið sína út á bjarg. Annars vegar er um að ræða stíg frá bílstæði að vélargeymslu og hins vegar stíg frá bílastæði og upp að Smáhömrum.

<>

Núverandi stígur frá bílastæði að vélargeymslu er gamall akvegur. Hann verður lagfærður til að minnka halla, en einnig verður efsti hluti burðarlags endurnýjað og sett nýtt yfirborðslag. Við vélarhúsið hafa verið sett upp upplýsingaskilti á suðurvegg hússins og þar verður hellulagt með náttúrugrjóti (flórun).

Stígurinn frá bílastæði að Smáhömrum er í dag gerður úr hellum úr náttúrugrjóti sem mynda stiklur upp að hömrunum. Hér verður stígurinn breikkaður í 1,6 m og sett nýtt burðar- og yfirborðslag. Yfirborð þessa stígs er að mestu malarlag, en á þeim stöðum þar sem álag er mikið verður yfirborðið hellulagt með náttúrugrjóti. Þar sem bratti er hvað mestur verða gerð grjótþrep. Grjót af svæðinu verður notað eins og hægt er, þ.m.t. núverandi grjót í stígstæði. Grjót sem þarf að ná í til viðbótar verður valið með tilliti til áferðar og lits.

Mikilvægt er að framkvæmdir leggist vel í landið og má gera ráð fyrir einhverri aðlögun og breytingum á staðnum þar sem mikið er um grjót og kletta sem ekki er innmælt. Því er lega stígs á teikningum leiðbeinandi, en allar breytingar verða ákvarðaðar í samráði við eftirlit.

Látrabjarg er á náttúruminjaskrá og Bjargtangaviti er friðaður. Því er lögð áhersla á vönduð vinnubrögð í hvívetna og að öllu raski verði haldið í lágmarki. Vönduð aðlögun að nánasta umhverfi er sérlega mikilvæg. Jarðvegur, grjót og gróðurtorfur í stígstæði skulu teknar upp, lagðar til hliðar og notaðar í frágang þegar malarfyllingar og yfirborðsefni hafa verið lögð.

Helstu tölur:

  • Stígar, heildarlengd 300 m
  • Grjótlögn 130 m2
  • Þrep úr náttúrugrjóti 43 m
  • Malaryfirborð 430 m2
  • Malarfylling 120 m3

 

Verkið er styrkt úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem hluti af átaki til uppbyggingar á ferðamannstöðum og var ætlað til stígagerðar og öryggisráðstafanna á Bjargtöngum.

 

Verkkaupi: Vesturbyggð

Samstarfsaðili: Umhverfisstofnun

Hönnun: Landmótun sf

Verktaki: Allt í járnum