Home Fréttir Í fréttum Byggingaframkvæmdir að hefjast á Kárhóli

Byggingaframkvæmdir að hefjast á Kárhóli

91
0
Mynd: 641.is

Byggingaframkvæmdir eru að hefjast við Norðurljósarannsóknamiðstöð Aurora Observatory (AO) sem rísa mun á Kárhóli í Reykjadal.

<>

Húsgrunnurinn hafi verið tilbúinn um mitt sumar og búið er að leggja nýjan veg frá þjóðvegi 1. að byggingarstað. Síðustu daga hefur verið unnið við frágang á drenlögnum við húsgrunninn.

Að sögn Reinhards Reynissonar hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga voru byggingaframkvæmdirnar boðnar út í sumar og barst eitt tilboð í verkið sem var 200% yfir kostnaðaráætlun og sagði Reinhard að engar forsendur hefðu verið fyrir því að taka því boði. Þá var ákveðið að semja beint við byggingaverktaka um að taka að sér verkið og tóku þær samningaviðræður nokkurn tíma og skýrir það tafir við byggingaframkvæmdir, en þær áttu að hefjast um mitt sumar. Samið var við SS-Byggir á Akureyri um uppsteypu á húsinu, sem verður á tveimur hæðum auk kjallara. Að sögn Reinhards verður unnið við húsið eins langt fram eftir hausti og unnt er.

Norðurljósarannsóknarstöðin Aurora Observatory (AO) er sjálfseignarstofnun með staðfestri skipulagsskrá lögum samkvæmt. Stofnaðilar eru Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar bs. , Atvinnuefling Þingeyjarsveitar ehf. , sem er eignarhaldsfélag sveitarfélagsins, Kjarni ehf. , sem er eignarhaldsfélag í eigu Þingeyjarsveitar, Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og nokkurra einstaklinga í héraði og Arctic Portal ehf., en fyrirtækið hefur virka aðkomu að margvíslegum rannsóknar- og upplýsingaverkefnum á sviði norðurslóðamála.

 

Heimild: 641.is