Í síðustu viku var tekin fyrsta skóflustunga að 10 íbúða fjölbýlishúsi við Hafnarbraut 9 á Bíldudal.
Um er að ræða byggingu Bæjartúns ehf. á 4 íbúðum með stofnframlögum ríkisins og Vesturbyggðar, en sveitarfélagið leggur 13,4 milljónir í stofnframlag til verkefnisins.
Fjórar íbúðir eru byggðar af Nýjatúni leigufélagi ehf. og 2 íbúðir byggðar af Hrafnshól ehf.
Frá þessu er greint á vef sveitarfélagsins.
Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Friðbjörg Matthíasdóttir bæjarfulltrúi og Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri ásamt Sigurði Garðarssyni fyrir hönd Bæjartúns, Nýjatúns og Hrafnshóla tóku fyrstu skóflustunguna.

Íbúðirnar eru 2ja og 3ja herbergja íbúðir, 51 m2 og 76 m2.
Framkvæmdir munu hefjast á næstu vikum. Hluti þeirra íbúða sem byggðar verða eru þegar komnar á sölu, en íbúðunum er skilað fullbúnum með helstu tækjum í eldhúsi og gólfefnum.
Mikil eftirspurn er eftir íbúðarhúsnæði í Vesturbyggð og er bygging þessara 10 íbúða mikilvægt skref til að bregðast við þeirri miklu íbúafjölgun sem orðið hefur verið, en íbúar í Vesturbyggð eru nú 1.100 talsins.
Heimild: BB.is