Framkvæmdir vegna rakaskemmda og myglu í Fossvogsskóla, sem staðið hafa yfir með hléum í tvö ár, hafa ekki skilað tilskildum árangri og enn er glímt við sömu vandamál og áður en þær hófust; rakaskemmdir og hátt rakastig á sömu svæðum.
Ákveðið hefur verið að engin kennsla fari fram í skólanum á næsta skólaári, en allar þrjár byggingar skólans verða gerðar upp.
Ákvörðunin er tekin í kjölfar úttektar sem verkfræðistofan Efla gerði fyrir borgina.
Efla mun hafa eftirlit með framkvæmdunum allt þar til yfir lýkur og er það nýbreytni frá því sem áður var þegar eftirlit var í höndum framkvæmdaaðilans sjálfs.
Borgaryfirvöld funduðu í gærkvöldi með foreldrum skólabarna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdir standi yfir allt næsta skólaár, en ekki er þó hægt að slá því föstu fyrr en vinna er hafin og í ljós kemur hve útbreitt vandamálið er.
Heimild: Mbl.is