Home Fréttir Í fréttum Styttist í að fyrstu íbúarnir flytji inn á Ísfélagsreit í Vestmannaeyjum

Styttist í að fyrstu íbúarnir flytji inn á Ísfélagsreit í Vestmannaeyjum

162
0
Fjöldi iðnaðarmanna var að störfum bæði innandyra og utan á húsinu í síðustu viku. Ljósmyndir/TMS

Það var áhugavert að skoða þá miklu uppbyggingu sem nú er á lokametrunum á Ísfélagsreitnum svokallaða við Strandveg 26.

<>

Árið 2018 ákváðu bæjaryfirvöld í Eyjum að leggja upp í fasteignaþróun á hinum svokallaða Ísfélagsreit eða nánar tiltekið á Strandvegi 26.

Að undangengnu auglýsingaferli var ákveðið að vinna með fyrirtækinu Steina og Olla að fasteignaþróuninni.

Ólafur Þór Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar fór í gegnum húsið með ritstjóra Eyjar.net í liðinni viku.

Hvert sem litið var voru iðnaðarmenn að störfum. Húsið sem er á fjórum hæðum er misjafnlega langt komið.

Lengst er jarðhæðin þó komin en á fimmtudaginn opnaði Íslandsbanki útibú sitt þar, eftir 65 ár á Kirkjuveginum.

Auk útibúsins eru fjórar íbúðir á jarðhæðinni sem ekki eru ætlaðar til sölu.

27 íbúðir í húsinu

Á annari hæð hússins eru íbúðir fyrir fatlaða. Alls sjö íbúðir á þeirri hæð auk þess sem þar verður sameiginlegt rými fyir fatlaða. Þá verður heitur pottur á svölum hæðarinnar.

Ólafur Þór bendir á að passað hafi verið uppá að uppfylla allar kröfur til hins ítrasta og hugsað um að hafa þægindin sem mest, bæði fyrir heimilsfólk sem og starfsmenn.

Til að mynda verður lyfta við heita pottinn, og í ákveðnum íbúðum verða einnig lyftur til að auðvelda það að koma fólki í og úr rúmi t.d. Þá á Vestmannaeyjabær tvö stæði í bílakjallaranum.

Ólafur segir að Vestmannaeyjabær hafi einnig fjárfest í tveimur íbúðum á þriðju hæð hússins, sem einnig eru ætlaðar fötluðum.

Restin af íbúðunum var svo seld á almennum markaði en þær eru samtals 27 talsins. Allar seldar, þ.e.a.s þær sem heimilt er að selja, alls 23 íbúðir, að meðtöldum íbúðum fyrir fatlaða.

Frábært útsýni yfir bæinn

Á þriðju hæð fer Ólafur með skrifara inn í eina af íbúðunum. Þá sem er í boganum. Þar kemur húsráðandi, Ársæll Sveinsson aðvífandi og er heldur betur til í að sýna okkur hvernig þetta verður, enda komið gólfefni á og eldhúsinnréttingin komin upp.

Útsýnið var hreint út sagt frábært, og hafði Sæli orð á því að það væri ekki amalegt að sitja þarna og fylgjast með næturlífinu í miðbænum. Á fjórðu hæðinni eru einnig nokkrar íbúðir og þar eru svalir meðfram öllum boganum með hreint út sagt frábæru útsýni.

Bylting fyrir fatlaða og starfsfólk

En í bakaleiðinni förum við aftur niður á aðra hæðina. Við stoppum í íbúð sem að hugsuð er fyrir fatlaða sem þurfa á skammtímaúrræði að halda.

Óhætt er að segja að öll aðstaða og húsakostur verði bylting fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda, og fyrir þá sem starfa við aðhlyningu við fatlaða.

Innanhússhönnun var í höndum Ríkharðs Stefánssonar innanhússarkitekts, Sigrúnar Örnu Gunnarsdóttur innanhússhönnuðar og Ingibjargar Sigurjónsdóttur forstöðumanns Sambýlisins, og er óhætt að segja að þeim hafi tekist vel til í hönnun og skipulagningu. Kostnaður við hönnun, gerð teikninga og útboðsgagna var um 10 milljónir króna samkvæmt verðskrá.

Áætlað að flytja inn í júní

Ólafur segir hvað varðar innahússfrágang þá var farið í verðfyrirspurn sbr. innkaupareglur Vestmannaeyjabæjar og gáfu Steini og Olli og H.Hjöll verð í innanhússfrágang sem eftir yfirferð verkkaupa voru samþykkt, en H.Hjöll er með innréttingar og hurðar en Steini og Olli ehf og þeirra undirverktakar eru með annan innahússfrágang.

Að sögn Ólafs var reiknað með að framkvæmdum lyki í þessum mánuði en nú er ljóst að einhver seinkun verður á því en vonandi verður hægt að flytja inn í júní.

Heimild: Eyjar.net