Borgarráð Reykjavíkur hefur fallið frá hugmyndum um að koma upp færanlegum leikskóla á Hagatorgi í vesturbæ Reykjavíkur. Þess í stað verði byggður upp almenningsgarður á torginu.
Þetta kemur fram í pósti frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, sem sendur var út í kjölfar fundar borgarráðs í dag.
„Við samþykktum að þróa Hagatorg sem almenningsgarð og almenningsrými en falla frá hugmyndum um færanlegan leikskóla þar.
Verkefnið mun taka á sig mynd í góð samráði og er umferðaröryggi og samspil við nærliggjandi skóla eitt af því sem skoðað verður með sérstaka áherslu á öruggar göngutengingar,“ segir borgarstjóri.
Áður hafði komið fram að borgin liti meðal annars til Hagatorgs fyrir færanlegan leikskóla sem myndi rýma um sextíu börn.
Í borgarráði í dag var samþykkt að setja þrjár staðsetningar undir nýja leikskóla í forgang: við Nauthólsveg 81, Vogabyggð 5 og Eggertsgötu 35. Er með þessu ætlað að mæta mikilli fjölgun barna í borginni, vistun yngri barna og minnkun á skutli milli borgarhluta.
Hugmyndin um færanlegu leikskólana var hluti af vinnu starfshóps sem hafði yfirskriftina Brúum bilið á meðan við brúum bilið.
Kom þar fram að stefnt yrði að því að koma fimm nýjum leikskólum fyrir á höfuðborgarsvæðinu, sem verði færanlegir og víkjandi fyrir annarri starfsemi: í Vogabyggð 5, Nauthólsvegi 81, Barónsstíg 34, Eggertsgötu 35 og Hagatorgi.
Heimild: Visir.is