Home Fréttir Í fréttum Leggja háspennustreng um bæjarlandið á Akureyri

Leggja háspennustreng um bæjarlandið á Akureyri

129
0
Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Hafnar eru framkvæmdir við lengsta 220 kílóvolta háspennustreng sem lagður hefur verið í jörðu hér á landi. Strengurinn er hluti Hólasandslínu og liggur að hluta í gegnum bæjarlandið á Akureyri.

Hólasandslína er 220 kV háspennulína frá Hólasandi að Akureyri og fer línan í jörð í Eyjafirði.

<>

Hluti þeirrar vinnu hófst í raun í haust þegar lögð voru ídráttarrör yfir Eyjafjarðará, við Rangárvelli og um viðkvæmt svæði í Naustaflóa.

Allt að 20 metra breitt svæði sem raskast

Núna er lagning háspennustrengsins að hefjast. „Við þurfum að leggja tvö strengsett til að anna flutningi sem þessi lína þarf að flytja,“ segir Friðrika Marteinsdóttir, verkefnisstjóri Landsnets við lagningu strengsins.

„Þannig að við erum með vinnuveg á milli og svo sitthvort strengsettið beggja vegna við. Þannig að þetta er allt að 20 metra svæði sem fer undir.“ En það eru ekki aðeins skurðir sem þarf að grafa, heldur fer strengurinn yfir Glerá og þar þarf að byggja sérstaka brú.

Finnur ehf. dælir sandi í skurð fyrir háspennustrenginn. Mynd: RÚV- Ágúst Ólafsson

Lengsti háspennustrengur í jörðu hingað til

Háspennustrengurinn fer um níu kílómetra leið – er þrefaldur í hvorum skurði og því eru þetta 56 kílómetrar af strengjum. Og keflin með strengnum eru engin smásmíði. „Já þetta hefur ekki verið gert á Íslandi áður í þessu magni.

Það er að segja svona sver strengur með svo mikla flutningsgetu,“ segir Kristinn Helgi Svanbergsson, verkefnisstjóri hjá Finni ehf. verktakanum sem leggur strenginn.

Strengurinn umlukinn sérstökum sandi í jörðinni

Í jörðu er strengurinn umlukinn sandi svo hann hitni ekki um of og til þess keypti verktakinn sérútbúið tæki til að dreifa sandinum jafnt í skurðina. „Það eru miklar kröfur varðandi varmaleiðni sandsins og eins umfangið og magnið sem þarf að vera, sem umlykur strengina,“ segir Kristinn.

Segir að ummerkin hverfi á fáum árum

Þessum framkvæmdum öllum fylgir mikið rask og Friðrika segir miklar kröfur um frágang og uppgræðslu að verki loknu. Hluti vegarins verði áfram nýttur sem reiðleið en önnur ummerki eigi að hverfa að mestu á fáum árum.

„Það er votlendissvæði sem grær mjög hratt, þar sem er mólendi er ýmist hægt að sá í það eða bera áburð eftir því hvað menn telja henta í hvert sinn. Þannig að í svona landi hverfur strengleið fljótt.“

Heimild: Ruv.is