Íslenskir aðalverktakar krefja 105 Miðborg slhf. og Íslandssjóði, dótturfélag Íslandsbanka, um 3,8 milljarða króna fyrir þjónustu sem verktakafyrirtækið telur sig hafa veitt í tengslum við uppbyggingu fasteigna á Kirkjusandi við Sæbraut.
Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri Íslandsbanka.
105 Miðborg slhf. er sérhæfður sjóður í rekstri og stýringu Íslandssjóða. Sjóðurinn heldur utan um uppbygginguna á Kirkjusandi, stórum þéttingarreit í Reykjavík.
Hluthafar þess eru tíu íslenskir lífeyrissjóðir, fimm vátryggingafélög og ellefu fagfjárfestar.
Sjóðurinn gerði samning við Íslenska aðalverktaka í lok árs 2017 um uppbyggingu á reitnum en í febrúar síðastliðnum var samningnum rift.
Ástæðan mun hafa varðað tafir á afhendingu einstakra verkþátta af hálfu verktakafyrirtækisins og að byggingum hafi ekki verið skilað í ásættanlegu ásigkomulagi.
Fyrir þremur dögum stefndu Íslenskir aðalverktakar 105 Miðborg og Íslandssjóðum, og gerir verktakafyrirtækið kröfu um greiðslu 3,8 milljarða króna. 105 Miðborg hafnar kröfunni og undirbýr nú gagnmálsókn.
Í yfirlýsingu sem verktakafyrirtækið sendi frá sér í byrjun mars sagði að félagið liti svo á að verkkaupi, það er 105 Miðborg, hefði átt að greiða fyrir hluta verksins sem var utan samnings en einnig ætti að taka tillit til þess í uppgjöri milli aðila að utanaðkomandi þættir eins og Covid-19 hefðu haft áhrif á framvinduna.
Heimild: Frettabladid.is