Home Fréttir Í fréttum „Hraðahindrun á framkvæmdanna vegi“

„Hraðahindrun á framkvæmdanna vegi“

91
0
Mynd: Þór Ægisson / RÚV

Margar kvartanir berast vegna galla í nýjum fasteignum. Hraða á byggingamarkaði er yfirleitt um að kenna, segir formaður Húseigendafélagsins.

<>

Sumir kaupendur segja seljendur lítið vilja hlusta á kvartanir og líti á kaupendur sem hraðahindrun á framkvæmdanna vegi, segir formaðurinn.

Mikið er um að vera á byggingamarkaði þessi misserin, mikið byggt og selt. Formaður Húseigendafélagsins segir að margar kvartanir berist félaginu vegna galla í nýjum fasteignum.

„ Já, það hafa verið mörg mál að undanförnu. Það er mikið um að vera á fasteignamarkaðnum, mikill hraði og óðagot, þá verða slysin og koma fram sem gallar. Í nýum húsum er auðveldara að ákveða hvað er galli og hvað ekki húsin eiga að vera gallalaus og því miður er mikill misbrestur á því.

Menn eru að flýta sér og eru byrjaðir á öðru verki áður en þeir klára hitt húsið og síðan kvarta kaupendur undan því að seljandur vilji lítið á þá hlusta, líti á þá sem hraðahindrun á framkvæmdanna vegi,“ segir Sigurður Helgi Guðjónsson formaður Húseigendafélagsins.

Hann segir að einnig berist kvartanir vegna fasteignasala, þeir eigi að gæta hagsmuna bæði kaupanda og seljanda, en séu stundum í erfiðri stöðu því þeir séu mögulega í viðskiptasambandi við verktaka sem sé að byggja og selja heilar blokkir.

Hann segir gallana af öllu tagi, frá smágöllum yfir í stærri og jafnvel galla á burðarvirki. Að sögn Sigurðar Helga er byggingaeftirlit þunglamalegt og lítil vernd í því.

Ef það væri öflugra og gæfi til dæmis út söluúttekt sem yrði að fylgja nýjum íbúðum myndi það skapa festu og öryggi.

„Það mætti hugsa sér að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gæfi út einhverjar lýsingar og á þeirra vegum eða vegum byggingafulltrúa í embættunum færi fram einhver úttekt, ekki endilega svona rækileg úttekt eins og á að gera við lok framkvæmda, sem vill þó dragast og stundum gleymast, heldur yfirferð samkvæmt einhverjum gátlista.

Það myndi skapa varnað og vera hið besta mál.“

Sigurður Helgi segir lagalega stöðu kaupenda nýrra eigna mjög sterka. Verði þeir varir við galla eigi þeir að kvarta og krefjast úrbóta. En þó lagaleg staða þeirra sé sterk, er það ekki alltaf nóg.

„Hins vegar er oft tímafrekt og erfitt að láta menn svara til ábyrgðar vegna galla og það kostar mikið fé og fyrirhöfn og þegar upp er staðið þá tapa yfirleitt allir, hver sem vinnur hin lögfræðilega sigur. Málin eru svo þung og dýr og hagsmunirnir kafna oft undir kostnaðinum.“

Þá segir Sigurður Helgi drátt á afhendingu þekkt vandamál og margar kvartanir berist um slíkt. Drátturinn geti oft verið verri en smávægilegir gallar.

Heimild: Ruv.is