Home Fréttir Í fréttum Nýr grunnskóli og 690 íbúðir í Nýja-Skerjafirði

Nýr grunnskóli og 690 íbúðir í Nýja-Skerjafirði

139
0
Umrætt landssvæði við Skerjafjörð sést neðst á myndinni. Mynd: Visir.is

Mikil uppbygging er fram undan í hverfi sem gengur undir nafninu Nýi Skerjafjörður. Borgarráð samþykkti í dag deiliskipulag fyrir svæðið, sem rís í framhaldi af byggðinni í Skerjafirði þar sem hún afmarkast í austri af Reykjavíkurflugvelli.

<>

Ætla má að álíka margir ef ekki fleiri íbúar muni bætast við með nýju hverfi en búa þegar í Skerjafirði. Skipulagið felur í sér blandaða byggð með um 690 íbúðum, verslun, þjónustu og útivistarsvæði. Gert er ráð fyrir að íbúafjöldi allt að þrefaldist í hverfinu.

Í samþykkt borgarráðs segir enn fremur að í Nýja-Skerjafirði verði reistur leik- og grunnskóli. Þar með verða grunnskólarnir orðnir fimm í Vesturbæ, sá nýjasti fyrir hverfi 102.

Gamli og Nýi-Skerjafjörður.
REYKJAVÍKURBORG

Íbúðirnar verða samkvæmt bókuninni af öllum stærðum og gerðum, m.a. undir hatti verkefnisins Hagkvæmt húsnæði þar sem byggt verður fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, ásamt því sem Bjarg byggir íbúðir fyrir sína félagsmenn og Félagsstofnun stúdenta fyrir stúdenta.

Sérbýli og raðhús verða í nýja hverfinu og tengja þau nýja hverfið við gróna byggð í Skerjafirði, sem sjá má að markast af Skeljanesi á myndinni að ofan. Innar í nýja hverfinu verða námsmannaíbúðir og hagkvæmt húsnæði.

Bílastæðakjarni mun þjóna allri fjölbýlishúsabyggðinni en raðhúsabyggð verður í öðrum hluta nýja hverfisins.

Í hverfinu verður áhersla lögð á forgang gangandi og hjólandi, hæga umferð og öflugar tengingar við almenningssamgöngur. Öll bílastæði lóða verða í miðlægu bílastæðahúsi, sbr. myndina að ofan, þar sem verður matvöruverslun og þjónusta á jarðhæð.

Tillaga þessi var samþykkt í borgarráði með 12 atkvæðum gegn 9, eins og greint var frá í Stundinni í dag. Sjálfstæðisflokkurinn kaus gegn og í bókun þeirra sagði: „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ótímabært að tekin sé endanleg ákvörðun um nýja byggð í Skerjafirði þar sem ýmsum rannsóknum og álitamálum er ólokið.“

Lögð er áhersla á umferð gangandi og hjólandi í Nýja-Skerjafirði.
REYKJAVÍKURBORG

 

Heimild: Visir.is