Vel gengur með lagningu neðansjávargangna sem tengja eiga færeysku eyjarnar Straumey og Sandey. Þegar hafa verið boraðir 7,8 kílómetrar af þeim tæplega ellefu sem göngin eiga að verða.
Vinna við göngin hófst sumarið 2019 og búist er við að hægt verði að opna þau fyrir umferð í desember 2023.
Þetta eru fjórðu göngin sem lögð eru neðansjávar til að tengja saman byggðir í Færeyjum og eru gríðarmikil framkvæmd. Samkvæmt opinberum áætlunum er búist við að þegar göngin verða tilbúin fari þrjú til fjögur hundruð bílar um þau á hverjum degi.
Skammt er síðan þriðju neðansjávargöngin í Færeyjum voru opnuð fyrir almennri umferð. Göng sem tengja höfuðstaðinn Þórshöfn við Austurey voru tekin í notkun skömmu fyrir jól en framkvæmdir við þau hófust árið 2017.
Heimild: Ruv.is