Þök á nýbyggingum í iðnaðar- og atvinnuhverfum í Frakklandi verða annað hvort að vera þakin gróðri að hluta eða sólarsellum, samkvæmt nýjum lögum. Græn þök eru einangrandi og draga þar með úr orkuþörf til upphitunar á vetrum og einangra gegn hita á sumrin. Þá binda þau regnvatn og skapa tækifæri fyrir hreiðurgerð fugla í borgum.
Guardian segir frá þessu. Krafa umhverfisverndarsinna gekk út á að gera skylt að þök allra nýbygginga yrðu að fullu græn. Ríkisstjórnin tók hins vegar ákvörðun um að krafan skyldi einungis taka til atvinnuhúsnæðis. Auk þess var fallið frá því að þök skyldu að fullu verða þakin gróðri og sömuleiðis gefinn kostur á að setja upp sólarsellur til raforkuframleiðslu í staðinn.
Græn þök eru vinsæl í Þýskalandi og Ástralíu. Þá voru græn þök gerð skylda á nýbyggingum í Toronto í Kanada árið 2009.