Home Fréttir Í fréttum Íbúðum í byggingu fækkar um fjórðung milli ára

Íbúðum í byggingu fækkar um fjórðung milli ára

53
0
Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Um 3.523 íbúðir eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu en þær voru 4.610 fyrir ári síðan. Íbúðum í byggingu fækkar þannig um fjórðung milli ára og hafa ekki verið færri á landsvísu í fjögur ár.
Þetta kemur fram í úttekt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem byggir á tölum Samtaka iðnaðarins.

„Ástandið hefur verið frekar svart undanfarið. Það fór að draga úr umsvifum í byggingaiðnaði árið 2019 en strax í byrjun árs 2020 mældist um fjörutíu prósenta samdráttur í byggingu íbúða á fyrstu byggingarstigum.

<>

Það getur verið margt sem útskýrir þessa fækkun. Það getur verið erfitt að fjármagna framkvæmdir við núverandi aðstæður.

Það er gríðarleg efnahagsleg óvissa,“ segir Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Mikil eftirspurn eftir fasteignum

Umsvif á fasteignamarkaði eru hins vegar mikil miðað við árstíma og aldrei hafa fleiri íbúðir selst að vetri til en nú.

Í hverjum mánuði síðan í september hafa verið slegin met í fjölda kaupsamninga en þó hefur dregið nokkuð úr umsvifum frá því í haust.

„Eftirspurnin hefur vissulega jákvæð áhrif á væntingar á byggingamarkaði og mun hafa hvetjandi áhrif á byggingu íbúða en það tekur auðvitað langan tíma að taka ákvörðun um að byggja íbúð og koma henni á markað.

Þarna erum við að tala um alveg tvö ár. Við erum að sjá núna tíu prósenta aukningu frá talningunni í september á fjölda íbúða á fyrstu byggingarstigum þannig að það er alveg ljóst að þessi mikla eftirspurn á markaðnum núna, sem og hlutdeildarlánin sem voru samþykkt í haust, eru að hafa mjög jákvæð áhrif á markaðinn,“ segir Ólafur.

Húsnæðisverð heldur áfram að hækka

„Það eru jákvæð teikn á lofti á byggingamarkaði. Til dæmis var samdrátturinn ekki eins mikill í íbúðafjárfestingu árið 2020 og búist var við, sem er mjög jákvætt, en miðað við nýjustu talningu Samtaka iðnaðarins er útlitið ekki nógu gott og það er gert ráð fyrir frekar fáum íbúðum á markað næstu tvö ár,“ segir Ólafur og bendir á að miðað við spáð byggingarmagn takist ekki að vinna upp óuppfyllta íbúðaþörf.

Ólafur segir því að það séu góðar líkur á að húsnæðisverð haldi áfram að hækka. „Það voru um fjögur þúsund íbúðir til sölu í maí á síðasta ári á landinu öllu en eru um 2.200 núna á öllu landinu.

Við erum að sjá mikinn samdrátt í framboði. Á meðan vaxtastigið er svona lágt og mikil eftirspurn á fasteignamarkaði þá er nokkuð ljóst að verðið hlýtur að halda áfram að hækka,“ segir hann.

Heimild: Ruv.is