Home Fréttir Í fréttum Deildum í leikskólanum Austurkór lokað vegna myglu

Deildum í leikskólanum Austurkór lokað vegna myglu

65
0
Mynd: Kópavogsbær

Tveimur deildum í leikskólanum Austurkór í Kópavogi hefur verið lokað í varúðarskyni vegna myglu sem greindist í klæðningu á útvegg.

<>

Myglan greindist eftir að starfsmaður leikskólans fór að finna fyrir einkennum sem talið var að kynnu að skýrast af mygluskemmdum.

Verkfræðistofan Mannvit var þá fengin til að taka sýni og senda til greiningar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands en engin mygla fannst í sýnunum.

Í kjölfarið voru tekin fleiri sýni, til dæmis úr einangrun útveggjar og gipsklæðningu á suðvesturhlið þar sem hafði orðið leki. Þar greindi Náttúrufræðistofnun Íslands myglu.

Viðgerðir eru þegar hafnar á leikskólanum. Til stendur að fjarlægja einangrun innandyra og klæða suðvesturhlið skólans að utan á sambærilegan hátt og á norðurhlið hússins.

Alls eru 76 börn í leikskólanum. Deildirnar sem nú þarf að loka hafa ekki verið nýttar í daglegu starfi heldur til sérkennslu fyrir litla hópa. Því hefur lokunin takmörkuð áhrif á leikskólastarfið.

Heimild: Ruv.is