Home Fréttir Í fréttum Einbreiðum brúm á Hringvegi (1) fækkar

Einbreiðum brúm á Hringvegi (1) fækkar

191
0
Kort sem sýnir framkvæmdasvæðin

Skipulega er verið að fækka einbreiðum brúm bæði á Hringvegi (1) og um landið allt. Árið 1990 voru einbreiðar brýr á Hringvegi hátt í 140 talsins. Þeim fækkaði hratt og voru orðnar um 60 í kringum 2006 og 42 árið 2011.

<>

Síðan hægðist mjög á slíkum framkvæmdum og aðeins voru breikkaðar eða byggðar nýjar brýr í stað 6 einbreiðra brúa á átta árum. Árið 2019 voru byggðar sjö brýr í stað einbreiðra brúa á landinu öllu.

Þetta voru brýr í Berufjarðarbotni, yfir Hófsá í Arnarfirði, yfir Mjólká í Arnarfirði, brú á Eldvatn og yfir Loftsstaðaá í Flóa, einnig brú yfir Breiðdalsá og stokkur fyrir Tjarnará á Vatnsnesi.

Í lok árs 2019 voru boðnar út fjórar brýr á Hringvegi; brú yfir Steinavötn í Suðursveit sem er 100 m löng, brú á Fellsá í Suðursveit sem er 47 metrar, brú á Kvíá í Öræfum sem er 32 m löng og brú á Brunná austan Kirkjubæjarklausturs sem er 24 m.

Framkvæmdir við þessar brýr hófust vorið 2020 og er þeim nú lokið eða við það að ljúka. Þar með hefur einbreiðum brúm á Hringvegi (1) fækkað í 32. Reyndar eru þær enn 33 talsins þar sem bráðabirgðabrú yfir Fellsá er enn uppistandandi og í notkun.

Í þessari grein verður fjallað um framkvæmdirnar við þessar fjórar brýr en Ístak sá um byggingu þeirra allra.

Mikil samgöngubót

„Þetta er mikil samgöngubót enda allir heimamenn mjög ánægðir með þetta,“ segir Gísli Gíslason verkefnastjóri á framkvæmdadeild Vegagerðarinnar sem hefur haft umsjón með verkunum fjórum ásamt Aroni Bjarnasyni deildarstjóra á framkvæmdadeild. Hann segir framkvæmdirnar hafa gengið ágætlega.

Einhver töf varð þó vegna veðurs auk þess sem ekki var hægt að hefja framkvæmdir við Fellsá fyrr en í júní 2020 vegna frágangs á samningum við landeigendur. „En nú er búið að hleypa umferð á allar brýr nema yfir Fellsá en til stendur að taka hana í notkun í mars eða apríl.“ Gísli telur að öllum framkvæmdum verði lokið í sumarbyrjun.

Brunná

Verkið við Brunná á Hringvegi (1) í Vestur-Skaftafellssýslu fólst í byggingu nýrrar brúar og rifi á eldri brú en framkvæmdir hófust í mars 2020.

Bráðabirgðabrú og ný brú yfir Brunná. Mynd/Ístak

Nýja brúin er í sömu veglínu og eldri brúin en nokkuð hærri. Sú gamla var byggð 1970 og var steypt bitabrú í tveimur höfum, 24 m löng og 4,8 m breið. Nýja brúin er með 7.800 m lóðréttum háboga og yfirbygging hennar er eftirspenntur biti í einu 24 m löngu hafi. Brúin er 10 m breið en þar af er akbrautin 9 m. Landstöplar brúarinnar eru steyptir og grundaðir á hrauni.

Bráðabirgðabrú og ný brú yfir Brunná. Mynd/Ístak

Brúaflokkur Vegagerðarinnar sá um byggingu bráðabirgðabrúarinnar sem notuð var meðan á framkvæmdum stóð en hún hefur verið rifin.

Kvíá

Verkið við Kvíá í Austur-Skaftafellssýslu fólst í byggingu nýrrar brúar, rifi á gömlu brúnni og gerð um eins km langs vegar beggja megin brúar auk tengivegar að áningarstað ofan vegar og vestan Kvíár. Auk þess var gerður leiðigarður að brúnni.

Kvíá, gamla brúin.

Brúin er í nýrri veglínu, 35 m suðaustan gömlu brúarinnar. Yfirbygging er samverkandi stálbitabrú með steyptu gólfi í einu 32 m löngu hafi. Heildarbreidd brúarinnar er 10 m, þar af er akbrautin 9 m. Landstöplar eru steyptir og grundaðir á 12 m löngum boruðum stálstaurum, samtals 26 stk. undir hvorn landstöpul. Stálstaurar eru innfylltir af steypu eftir borun.

Nýja brúin yfir Kvíá. Mynd/Ístak

Verkinu átti að ljúka í nóvember 2020 en vegna veðurs var ekki hægt að ljúka frágangi og verður það klárað fyrir sumarið. Umferð hefur þó verið hleypt á brúna.

Gamla brúin var stálbitabrú með steyptu gólfi á steyptum stöplum alls 38,3 m að lengd. Hún hefur verið rifin.

Fellsá og Steinavötn

Brýr yfir Fellsá og Steinavötn á Hringvegi (1) í Suðursveit voru boðnar út saman.

Steinavötn, gamla brúin.

Brúin yfir Steinavötn eyðilagðist í flóðum haustið 2017 en hún var byggð árið 1964. Brúin var einbreið, 102 m löng steinsteypt bitabrú í sex höfum.

Steinavötn, nýja brúin í byggingu, bráðabirgðabrú í baksýn. Mynd/Ístak

Í vatnavöxtunum í lok septembermánaðar 2017, gróf áin undan millistöpli sem við það seig og skemmdi yfirbyggingu. Brúin var í kjölfarið dæmd ónýt. Þurfti að hafa hraðar hendur og byggja bráðabirgðabrú, en það var gert á tæpri viku.

Bygging bráðabirgðabrúar yfir Steinavötn

Framkvæmdin við Steinavötn fólst í hækkun og breikkun vegar og tengingu við nýja brú á 880 m löngum kafla og byggingu leiðigarða.

Steypuvinna við Steinavötn. Mynd/Ístak

Nýja brúin er í sömu veglínu og gamla brúin en yfirbygging er steypt eftirspennt bitabrú í fjórum höfum en heildarlengd er 100 m. Brúin er tíu metra breið en þar af er akbrautin níu metrar.

Fellsá, gamla brúin og bráðabirgðabrú. Mynd/Ístak

Framkvæmdin við Fellsá fól í sér gerð bráðabirgðavegar og byggingu bráðabirgðabrúar og rif á gömlu brúnni yfir Fellsá. Breikka þurfti veg og gera tengingu við nýja brú yfir Fellsá á 400 m löngum kafla.

Bráðabirgðabrú og framkvæmdir við Fellsá. Mynd/Ístak

Brúin er í sömu veglínu og gamla brúin. Yfirbygging nýju brúarinnar er steypt eftirspennt bitabrú í tveimur höfum en heildarlengd er 47 m. Brúin er 10 m breið, akbrautin er 9 m og bríkur eru hálfur metri til hvorrar handar. Stöplar brúarinnar eru steyptir og grundaðir á klöpp.

Gamla brúin var rifin í upphafi framkvæmda. Bráðabirgðabrúin þjónar enn vegfarendum en verður rifin þegar umferð verður hleypt á nýju brúna í vor.

Næstu skref í fækkun brúa

Einbreiðum brúm á Hringvegi (1) fækkar enn frekar í ár. Búið er að bjóða út byggingu brúar yfir Jökulsá á Sólheimasandi en einnig stendur til að fara í framkvæmdir við brýr yfir Hverfisfljót, Súlu (Núpsvötn) og Skjálfandafljót.  Þá er fyrirhugað að bjóða út fyrsta samvinnuverkefnið um vegaframkvæmdir  en það er nýr vegur  og brú yfir Hornafjarðarfljót.

Einbreiðar brýr eru þó víðar en á Hringvegi en alls eru 663 einbreiðar brýr á landinu. Árið 2020 voru breikkaðar brýr á Hattardalsá, Hvítsteinslæk, Álftárbakkaá, Kálfalæk á Mýrum og Hrútá. Þá eru núna í framkvæmd nokkrar brýr utan Hringvegar: Botnsá í Tálknafirði, Bjarnadalsá í Önundarfirði, Vesturhópshólaá, Laxá í Laxárdal og Köldukvíslargil.

Önnur verkefni sem stendur til að fara í eru: Bakkaá hjá Keisbakka, Þverá, Hólkotsá, Otradalsá, Þverá á Langadalsá, Ólafsdalsá, Efri Skarðsá, Sandalækur í Miðfirði, Fossá í Jökulsárhlíð og Helgustaðaá.

Heimild: Vegagerðin.is