Home Fréttir Í fréttum Fosshótel gert að greiða helming leigu

Fosshótel gert að greiða helming leigu

244
0
Fosshótel Reykjavík er stærsta hótel landsins. Mynd: Haraldur Guðjónsson

Leigusamningi Fosshótels Reykjavík og Íþöku vikið til hliðar í héraði og hótelinu gert að greiða helming vangoldinnar leigu.

<>

Héraðsdómur Reykjaness synjaði beiðni Fosshótels Reykjavík ehf. um staðfestingu á lögbanni er varðaði beiðni Íþöku fasteigna ehf. á greiðslu úr bankaábyrgð og af handveðsettum reikningi hótelsins hjá Íslandsbanka vegna vangoldinna leigugreiðsla. Leigusamningunum var hins vegar vikið til hliðar og  Fosshótel gert að greiða helming leigunnar.

Mál þetta var upphaflega höfðað af Fosshótel til staðfestingar á fyrrgreindu lögbanni en þar var Íslandsbanka stefnt til varnar auk Íþöku. Enn fremur var gerð krafa um að leigusamningi aðila yrði vikið frá að hluta síðustu níu mánuði síðasta árs og kveðið á um með dómi að félaginu hafi ekki verið skylt að greiða leigu á tímabilinu.

Enn fremur var þess krafist að fyrstu þrjá mánuði þessa árs bæri félaginu aðeins að greiða ðfimmtung leigunnar. Íþaka hafði uppi gagnkröfu og krafðist að Fosshótel yrði dæmt til að greiða vangoldna leigu, frá apríl 2020 til september sama ár.

Í málinu reyndi meðal annars á það hvort heimsfaraldur, á borð við þann sem hamlað hefur daglegu lífi hérlendis í tæpt ár og lengur ytra, teljist force majeure, það er óviðráðanlegar ytri aðstæður sem myndu leiða til þess að hefðbundin vanefnd á samningi telst ekki slík.

Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst er þetta fyrsta málið af þessum toga sem nær í aðalmeðferð. Í ljósi mikilvægis sakarefnisins var dómur fjölskipaður í héraði og samanstóð af þremur embættisdómurum.

Ekki greitt leigu frá 1. apríl 2020

Forsaga málsins er sú að árið 2015 opnaði Fosshótel í Reykjavík í Þórunnartúni 1 við Höfðatorg. Eigandi hússins er fyrrgreint félag, Íþaka fasteignir ehf., sem aftur er í endanlegri eigu Péturs Guðmundssonar, oft nefndur í sömu andrá og Eykt. Leigusamningur var gerður til tuttugu ára um húsnæðið en samkvæmt honum má aðeins starfrækja hótel í hinu leigða.

Frá því að kórónuveiran nam land undi lok febrúar á síðasta ári hefur ferðaþjónusta verið í mýflugumynd og frá 1. apríl síðastliðnum hefur umþrætt hótel verið lokað og Fosshótel ekki greitt leigu frá þeim degi.

Eftir messuföll fór Íþaka fram á það við Íslandsbanka að fá greitt annars vegar úr bankaábyrgð og hins vegar af reikningi hótelrekandans sem handveðsettur var til að tryggja efndir. Áður en til útgreiðslu kom fór Fosshótel fram á lögbann á hana sem sýslumaður féllst á.

Heimild: Vb.is