Home Fréttir Í fréttum Húsið hannað til að þola hamfarir og hryðjuverk

Húsið hannað til að þola hamfarir og hryðjuverk

177
0
Mynd: Kristinn Þeyr - rúv
Mikil leynd hvílir yfir sérhönnuðum geymslurýmum þar sem handritin verða geymd – í Húsi íslenskra fræða sem nú er risið í vesturbæ Reykjavíkur.
Þeir sem koma nálægt framkvæmdunum þurfa að vera með hreint sakavottorð og húsið þarf að standa autt í ár til að ná réttu hita- og rakastigi áður en hægt verður að flytja handritin þangað.

Uppsteypu Húss íslenskunnar við Arngrímsgötu í Reykjavík lauk fyrir skömmu. Framkvæmdirnar hófust í ágúst 2019 eftir að grunnur hússins hafði staðið eins og opið sár á lóðinni í sex ár. Nú eru framkvæmdir á undan áætlun.

<>

„Það er ánægjulegt að segja frá því að nú er bara húsið risið hreinlega. Það er búið að steypa bygginguna upp og nú er farið að birtast svona formið í borgarlandslaginu eins og við eigum eftir að sjá hana.

Og eins og þið heyrið hérna og sjáið þá er verið að vinna á fullu, verið setja gluggana í húsið. Og þá verður hægt að hefjast handa inni,“ segir Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins.

Öryggisbúnaðurinn á sér engan líka

Framkvæmdirnar eru talsvert flóknari en gengur og gerist. Húsið er meðal annars hannað til að þola jarðskjálfta yfir 15 að stærð, mikinn vatnsskaða og að flugvél gæti flogið beint á það. Þá á tækni- og öryggisbúnaður hússins sér engan líka hér á landi – og mikil leynd hvílir yfir geymslurýmum handritanna.

„Og þetta er náttúrulega leyst með ríkislögreglustjóra og fleiri aðilum sem eru sérfróðir í þessu. Tækjabúnaður, tæknin í kringum þetta, það hvernig þetta er sett upp.

Miklar kröfur til þess. Og að sama skapi hverjir koma að þeirri vinnu. Það eru gerðar ríkar kröfur til bæði hæfni en líka þess hverjir það eru og sem dæmi sakavottorð og ýmislegt annað,“ segir Guðrún.

Bíða í heilt ár eftir réttu raka- og hitastigi

Búist er við að húsið verði tilbúið í ágúst 2022 en það verður þó ekki tekið formlega í notkun fyrr en ári síðar.

„Frá því að húsið verður afhent þá tekur um ár til að hægt sé að ná ásættanlegu rakastigi og aðstæðum þannig að hægt sé að flytja handritin í húsið hreinlega. Þetta er eitthvað sem að fyrst þegar maður heyrir það, maður hugsar, í alvörunni, getur það tekið svo langan tíma? en þannig er það. Það er að ýmsu að huga,“ segir Guðrún.

Heimild: Ruv.is