Dalsnes hefur lagt fram fyrirspurn um burðarþol lóðar undir hátæknivöruhús félagsins í Korngörðum 3 við Sundahöfn. Vöruhúsið er í byggingu.
Magnús Þór Ásmundsson, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir Dalsnes matsbeiðanda í málinu.
Varða ástand og burðarþol
„Dalsnes hefur lagt fram matsbeiðni vegna lóðarinnar í Korngörðum 3 við Sundahöfn en Faxaflóahafnir eru eigandi lóðarinnar og þal. matsþoli. Það þýðir að Dalsnes setur fram matsspurningar en þær varða ástand og burðarþol lóðarinnar.
Dalsnes hefur ekki sett fram neinar kröfur,“ segir Magnús Þór. Því hafi ekki komið fram hverjar óskir Dalsness séu í málinu. Þá sé ekkert dómsmál í gangi.
Lóðin hafi uppfyllt eiginleika
Magnús Þór segir ekki óalgengt að slíkar matsbeiðnir séu lagðar fram þegar uppi eru álitamál um ástand fasteigna.
„Nú er málið hjá dómkvöddum matsmönnum sem munu gera skýrslu eða álykta um þessar matsspurningar.
Okkar hlutverk er að leggja fram gögn sem varða matsspurningarnar. Þau gögn snúa einkum að því að lóðin uppfylli þá eiginleika sem upp voru gefnir við úthlutun,“ segir Magnús Þór.
Magnús Óli Ólafsson, forstjóri heildverslunarinnar Innness, gaf ekki kost á viðtali um málið en systurfélagið Dalsnes byggir húsið.
En hinn 1. september 2017 tók Gísli Gíslason, þáverandi hafnarstjóri Faxaflóahafna, fyrstu skóflustungu að nýju vöruhúsinu.
Heimild: Mbl.is