Home Fréttir Í fréttum Tilgangur riftunar að valda ÍAV tjóni

Tilgangur riftunar að valda ÍAV tjóni

328
0
Sigurður Ragnarsson er forstjóri ÍAV. Mynd: Eva Björk Ægisdóttir

Fyrirtækið segist ekki hafa fengið greitt vegna vinnu við Kirkjusandsreitinn frá því í lok nóvember og boðaði því stöðvun verks í janúar.

<>

Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Í henni kom fram fjárfestingarsjóðurinn 105 Miðborg hafi rift verkkaupasamningi við ÍAV um uppbyggingu á lóðum að Kirkjusandi. Ástæður riftunarinnar voru sagðar gríðarlegar tafir á afhendingu einstakra verkþátta af hálfu ÍAV ásamt því að verktakinn hafi ekki skilað byggingum af sér í ásættanlegu ásigkomulagi.

Í yfirlýsingu ÍAV segir að Morgunblaðið hafi ekki leitað eftir sjónarmiðum ÍAV við vinnslu fréttarinnar. Einnig kemur fram að ágreiningur og tafir sem Íslandssjóðir og 105 Miðborg sem ástæður riftunar eru að mati ÍAV fjarri því að vera lögmætar.

„Tjón ÍAV vegna aðgerða verkkaupans er verulegt, bæði vegna verkkostnaðar sem ekki hefur fengist greiddur og einnig vegna þess orðspors sem félagið hefur byggt upp í áratugi.“

Verktakafyrirtækið segir að aðdragandi riftunar hafi verið ágreiningur um skilning á ákvæðum verksamnings sem snýst um þrjár byggingar, en tveimur þeirra hafi þegar verið skilað. ÍAV taldi að verkkaupinn ætti að greiða fyrir hluta verksins sem voru utan samnings en einnig ætti að taka tillit til annarra utanaðkomandi þátta, einkum Covid, við ákvörðun verktíma og viðbótarkostnaðar.

Fyrirtækið segist ekki hafa fengið greitt vegna vinnu við verkið frá því í lok nóvember 2020. Því hafi ÍAV boðað stöðvun verksins í janúar síðastliðnum en fallið frá því í ljósi loforða um úrbætur, sem ÍAV telur að hafi ekki staðist.

„ÍAV bauðst til að gera samkomulag um lyktir verksamningsins í ljósi samstarfsörðugleika án nokkurra skilyrða skömmu áður en verkkaupi ákvað að fara fram með riftun. Því var hafnað. Tilgangur með riftuninni virðist því vera sá að valda verktakanum sem mestu tjóni og halda áfram að komast undan greiðslu verkkostnaðar og skuldbindingum þar um. Við riftun verksamnings hefur ÍAV ekki annan kost en að hætta að efna samninginn af sinni hálfu og leita réttar síns til uppgjörs og bóta,“ segir í tilkynningunni.

„Ástæður þeirrar stöðu sem upp er komin er fjarri því að vera tregða ÍAV til þess að klára verkið með sóma enda hefur ÍAV alltaf lagt mikið uppúr því að viðskiptavinir séu ánægðir með þjónustu félagsins eins og orðspor þess ber merki um.” Fyrirtækið hyggst ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

Yfirlýsingin í heild sinni:

„Vegna fréttar í Morgunblaðinu í morgun vill ÍAV koma eftirfarandi á framfæri en tekið skal fram að ekki var leitað eftir sjónarmiðum ÍAV við vinnslu fréttarinnar. 

Í fréttinni kemur fram að verkkaupi 105 Miðborg, sem er rekið af Íslandsjóðum, hafi rift samning við ÍAV og nefnt að skýringarnar sem gefnar eru fyrir riftuninni séu miklar tafir við framkvæmdir og gallar á húsbyggingunum sem ÍAV neiti að gera við, eins og það er orðað. 

Aðdragandi riftunar er sá að upp kom ágreiningur um skilning á ákvæðum verksamnings sem snýst um þrjár byggingar. Tveimur þeirra hefur þegar verið skilað. ÍAV taldi að verkkaupi ætti að greiða fyrir hluta verksins sem voru utan samnings en einnig að taka ætti tillit til ýmissa utanaðkomandi þátta, einkum Covid-19, við ákvörðun verktíma og viðbótarkostnaðar. ÍAV hefur ekki fengið greitt vegna vinnu við verkið frá í lok nóvember mánaðar 2020. ÍAV boðaði vegna þessa stöðvun verksins í janúar sl. en féll frá því í ljósi loforða um úrbætur, sem ÍAV telur að hafi ekki staðist. 

Vegna þessa gerði ÍAV einnig fyrirvara vegna áframhaldandi vinnu við þriðja húsið, m.a. vegna kröfu verkkaupa um aðild ÍAV að samningi við nýjan undirverktaka sem 105 Miðborg óskaði eftir að fengi að vinna þann verkþátt, raunar í andstöðu við niðurstöðu útboðs er fram fór. 

Ástæður þeirrar stöðu sem upp er komin er fjarri því að vera tregða ÍAV til þess að klára verkið með sóma enda hefur ÍAV alltaf lagt mikið uppúr því að viðskiptavinir séu ánægðir með þjónustu félagsins eins og orðspor þess ber merki um. 

Ágreiningur og tafir sem Íslandssjóðir/105 Miðborg, nefna að sögn blaðsins sem ástæður riftunar eru að mati ÍAV fjarri því að vera lögmætar. Tjón ÍAV vegna aðgerða verkkaupans er verulegt, bæði vegna verkkostnaðar sem ekki hefur fengist greiddur og einnig vegna þess orðspors sem félagið hefur byggt upp í áratugi. 

ÍAV bauðst til að gera samkomulag um lyktir verksamningsins í ljósi samstarfsörðugleika án nokkurra skilyrða skömmu áður en verkkaupi ákvað að fara fram með riftun. Því var hafnað. Tilgangur með riftuninni virðist því vera sá að valda verktakanum sem mestu tjóni og halda áfram að komast undan greiðslu verkkostnaðar og skuldbindingum þar um. Við riftun verksamnings hefur ÍAV ekki annan kost en að hætta að efna samninginn af sinni hálfu og leita réttar síns til uppgjörs og bóta.

Hvað verktryggingu varðar þá hefur VÍS þegar gefið frá sér yfirlýsingu um að óvíst sé að skilyrði 105 Miðborgar/Íslandssjóða sé uppfyllt varðandi greiðslu úr verktryggingunni. 

Ljóst er að ágreiningur þessi mun ekki vera leystur í fjölmiðlum og mun ÍAV ekki tjá sig um málið frekar að svo stöddu.“

Heimild: Vb.is