Bleika skrifstofuhúsið í Bríetartúni í Reykjavík var um hríð táknmynd ferðaútrásarinnar.
Þar var flugfélagið WOW air með höfuðstöðvar og gekk reksturinn svo vel að stjórnendur félagsins hugðust reisa nýjar höfuðstöðvar í Kársnesi í Kópavogi og hótel þar við hlið.
Eftir mótbyr og niðurskurð fór svo að WOW air hætti starfsemi 28. mars 2019. Við tók hægur bati í ferðaþjónustunni og svo hrun út af kórónuveirufaraldrinum.
Í stað gamla kennileitisins á Höfðatorgi rís atvinnuhúsnæði. Einungis á eftir að byggja síðasta húsið á lóðinni, skrifstofubyggingu á Katrínartúni 6.
Það er bygging sem Íþaka ehf. bauð undir húsnæði fyrir Skattinn og skattrannsóknarstjóra ríkisins.
Á Höfðatúnsreit er nú þegar að finna fjölbreytta starfsemi, svo sem banka, landlækni, þjóðkirkjuna og mörg svið Reykjavíkurborgar.
Heimild: Mbl.is