Home Fréttir Í fréttum Fyrsta skóflustungan tekin í Hamranesi

Fyrsta skóflustungan tekin í Hamranesi

365
0
Fyrsta skóflustungan var tekin í Hamranesi sl. mánudag. Hreinn Ólafur Davíðsson hjá BYGG tók fyrstu skóflustunguna. Mynd: Hafnarfjörður.is

Uppbygging að hefjast á annað þúsund íbúðum í hverfinu.

<>

Byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar veitti í upphafi vikunnar fyrsta byggingarleyfið til framkvæmda í Hamranesi, nýjasta íbúðarhúsahverfi Hafnarfjarðar.

BYGG mun reisa fjölbýlishús með 24 íbúðum að Hringhamri 1 í Hamranesi. Fyrsta framkvæmdaleyfið var veitt í upphafi vikunnar. Mynd: Hafnarfjörður.is

Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. (BYGG) sótti í desember 2020 um leyfi fyrir 4. hæða fjölbýlishúsi á lóðinni að Hringhamri 1 en til stendur að reisa þar hús með 24 íbúðum hannað af Guðmundi Gunnlaugssyni arkitekt.

Þetta fyrsta leyfi markar upphafið að uppbyggingu Hamraneshverfis. Í Hamranesi er gert ráð fyrir grunnskóla og tveimur leikskólum auk búsetuúræðis fyrir eldri borgara.

25 hektara nýbyggingarsvæði

Hamranesið er um 25 hektara nýbyggingarsvæði sem rísa mun við hlið Skarðshlíðarhverfis. Búið er að úthluta til verktaka sex lóðum með alls 148 íbúðum.

Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. eru þegar farnir af stað með framkvæmdir á tveimur lóðum; við Hringhamar 1 og Nónhamar 4 þar sem áformað er að byggja 12 íbúðir auk þess sem búið er að samþykkja byggingaráform við Nónhamar 6.

Búast má við aðaluppdráttum frá fleiri verktökum á næstu vikum. Bjarg íbúðafélag, sem er með þrjár lóðir í Hamranesinu, er þessa dagana að vinna deiliskipulag fyrir 148 íbúðir á lóðunum og að hönnun íbúðanna.

Skipulagsvinna, gatnagerð og innviðauppbygging hefur verið í fullum gangi í Hamranesi síðustu vikur og mánuði og allt kapp lagt á að hraða uppbyggingu á hverfinu til að mæta eftirspurn og áhuga eftir hvorutveggja íbúðum og lóðum á svæðinu.

Gatnagerð er nú lokið í kringum verktakareiti og í kringum Bjarg en búast má við að annarri gatnagerð ljúki í haust.

Þá er búið að úthluta í Hamraneshverfi þróunarreitum með a.m.k. 1022 íbúðum og geta lóðarhafar farið í deiliskipulagsvinnu á sínum reitum. Búast má við að deiliskipulagsvinnan taki allt að 6 mánuði áður en hægt verður að skila inn aðaluppdrætti og gefa út byggingarleyfi.

,,Það er afar ánægjulegt hve eftirspurnin hefur verið mikil eftir lóðum á svæðinu og að finna þann mikla hug sem er í byggingaraðilum“, segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri.

Uppbygging er mikil þessa dagana í Skarðshlíðarhverfi og við gatnagerð í Hamranesi. Uppbygging í Hamranesi fór af stað í vikunni eftir að fyrsta byggingarleyfið var veitt. Mynd: Hafnarfjörður.is

„Nú eru lóðir í Skarðshlíð uppseldar og þá tekur uppbygging við í Hamranesinu. Flutningur raflína yfir hverfinu og framkvæmdir við Ásvallabraut hafa þar vitaskuld mikið að segja.

Nokkur svæði eiga enn eftir að koma til úthlutunar á þróunarreitum í Hamranesinu og hafinn er undirbúningur skipulagsvinnu á næstu nýbyggingarsvæðum bæjarins í Áslandi 4 og 5.

Framundan er því gríðarleg uppbygging íbúðahúsnæðis í bænum, á umræddum nýbyggingarsvæðum, við Hraun-Vestur, á hafnarsvæðinu og víðar. Fjölbreytnin mun ráða ríkjum á allra næstu árum þegar kemur að nýjum íbúðamöguleikum í Hafnarfirði.“

Heimild: Hafnarfjörður.is