Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík hefur tekið jákvætt í umsókn eiganda Laugavegar 105 um að innrétta allt að 36 nýjar íbúðir á 3., 4. og 5. hæð hússins.
Í umsögn kemur fram að nokkrum sinnum áður hafi embætti skipulagsfulltrúa fjallað um fyrirspurnir fyrir þessa lóð með umsögn á umliðnum árum.
Afgreiðsla þeirra mála var neikvæð m.a. vegna þess að byggt var við húsið sem hefur verndargildi og nýtur verndar götumyndar í deiliskipulagi.
Húsið var byggt 1926 og teiknað af Einari Erlendssyni.
Þar var lengi vel bifreiðasmiðja og bílaumboð Sveins Egilssonar, sem hafði m.a. umboð fyrir Ford-bifreiðarnar bandarísku.
Mælt er með því að heimilað verði að hefja vinnu við tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samvinnu við verkefnisstjóra hjá skipulagsfulltrúa, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is