Home Fréttir Í fréttum Mótás keypti af Landsbankanum í Stoðum fyrir um milljarð

Mótás keypti af Landsbankanum í Stoðum fyrir um milljarð

623
0
Bergþór Jónsson hjá Mótás

Félag í eigu Bergþórs og Fritz Hendriks, sem hafa starfað saman sem byggingarverktakar um árabil, keypti um þriðjung af þeim bréfum sem Landsbankinn seldi í einu umsvifamesta fjárfestingafélagi landsins.

<>

Félag sem Lárus Welding stendur að keypti eins prósenta hlut og bætist við í hluthafahóp Stoða.

Mótás, sem er í eigu Bergþórs Jónssonar og Fritz Hendriks Berndsen, var stærsti, einstaki kaupandinn að rúmlega tólf prósenta eignarhlut Landsbankans í fjárfestingafélaginu Stoðum, en hlutur bankans var seldur fyrir samtals um 3,3 milljarða króna í síðasta mánuði.

Samkvæmt nýjum hluthafalista Stoða, sem Markaðurinn hefur undir höndum, nemur eignarhlutur Mótás um 3,82 prósentum og er félagið orðið fjórði stærsti hluthafi Stoða. Kaupverð Mótás á þeim hlut af Landsbankanum var því um 1.040 milljónir króna.

Bergþór og Fritz, sem hafa starfað saman sem byggingaverktakar um árabil, seldu fasteignafélag sitt Vínlandsleið til Reita árið 2018 og nam heildarkaupverðið um 5,9 mill­jörðum króna.

Á meðal annarra fjárfesta sem hafa bæst við í hluthafahóp Stoða eftir sölu Landsbankans er eignarhaldsfélagið P1211, sem Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, stendur bak við, með rúmlega eins prósents hlut og safnreikningur hjá Kviku banka er skráður fyrir um 1,7 prósents eignarhlut.

Þá komu einnig sumir af eldri hluthöfum Stoða að kaupum á hlut Landsbankans. Félagið Vindhamar, sem er í eigu Kára Þórs Hallgrímssonar, stjórnanda á skuldabréfasviði fjárfestingabankans JP Morgan í London, tvöfaldaði næstum hlut sinn og fer nú með 2,12 prósenta eignarhlut, Lífsverk lífeyrissjóður keypti um eins prósents hlut og er í dag með 1,35 prósent í Stoðum og þá jók einnig eignarhaldsfélagið GGH, sem er í eigu Magnúsar Ármanns fjárfestis, nokkuð við hlut sinn og er með tæplega 1,1 prósent.

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður fjárfestingafélagsins Stoða.

Langsamlega stærsti eigandi Stoða, sem er eitt umsvifamesta fjárfestingafélag landsins og stór hluthafi í Símanum, TM, Kviku og Arion banka, er sem fyrr eignarhaldsfélagið S121 með rúmlega 55 prósenta hlut, en það er meðal annars í eigu Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns Stoða, Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, og Örvars Kjærnested, stjórnarformanns TM. Samkvæmt heimildum Markaðarins bættu sumir af hluthöfum félagsins óbeint við eignarhlut sinn í Stoðum með kaupum í gegnum S121.

TM er næststærsti hluthafi Stoða með um 12,4 prósenta hlut í eigin nafni, en tryggingafélagið var áður hluthafi í gegnum eignarhald sitt í S121. Þá fara sjóðir í stýringu Stefnis, dótturfélags Arion banka, samanlagt með um 10,5 prósenta hlut.

Auk Landsbankans seldi einnig Hofgarðar, sem er félag í eigu Helga Magnússonar, aðaleiganda Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins, og stjórnarformaður Bláa lónsins, tæplega eins prósents hlut sinn í Stoðum undir lok síðasta árs, en félagið hafði komið inn í hluthafahópinn sumarið 2019.

Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs var hagnaður Stoða tæplega tveir milljarðar króna og eigið fé félagsins nam um 27 milljörðum. Fjárfestingaeignir Stoða voru þá metnar á 23,5 milljarða króna og átti félagið um 3,6 milljarða í reiðufé.

Heimild: Frettabladid.is