Home Fréttir Í fréttum Umbreyting í Keflavík í aðsígi

Umbreyting í Keflavík í aðsígi

239
0
Þróunarsvæði Kadeco við Keflavíkurflugvöll. Aðsend mynd

Sérfræðingur Kadeco segir að Keflavíkurflugvöllur þurfi að „endurhanna viðskiptamódel sitt.“ Áhersla lögð á fraktflutning.

<>

Við teljum að byggða- og atvinnuþróun í tengslum við Keflavíkurflugvöll sé mjög brýnt verkefni. Flugvellir víðs vegar í heiminum standa höllum fæti en árið í ár hefur verið eitt það erfiðasta fyrir flugrekstur í sögunni.“

Þetta segir Dr. Max Hirsh, sérfræðingur á sviði flugvallaþróunar. Hirsh er einn af ráðgjöfum Kadeco, þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, en hann hefur komið að ráðgjöf við slíka uppbyggingu víða um heim.

„Það liggur í augum uppi að flugvöllurinn þarf í framtíðinni að endurhanna viðskiptamódel sitt. Mikil áhersla hefur verið lögð á tekjur frá ferðamönnum og viðskiptum þeirra á vellinum.

Ef flugvellir geta dregið einn lærdóm af kórónuveirufaraldrinum er það mikilvægi þess að dreifa áhættu með fjölbreyttum tekjustofnum. Þannig komast flugvellir lífs af í framtíðinni.“

Meginmarkmið Kadeco er að leiða samstarf íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesbæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands við Keflavíkurflugvöll. Þróunarsvæðið sem nú er verið að huga að uppbyggingu á er 3,5 ferkílómetrar að stærð en alls sér Kadeco um uppbyggingu á um 55 ferkílómetra svæði.

Áhersla lögð á fraktflutning
„Ein hugmynd er að horfa til Keflavíkurflugvallar sem fraktmiðstöðvar þrátt fyrir að farþegaflutningur verði ennþá mikilvæg stoð í rekstri vallarins. Til þess þarf að efla vöruflutning í gegnum sjó og flug,“ segir Hirsh.

Hann telur að í framtíðinni muni hluti farmflutninga sem nú eiga sér stað við til dæmis við Sundahöfn færast og segir hann stórskipahöfnina við Helguvík mjög áhugaverða í því tilliti.

„Flugvellir eru oft á tíðum einn af stærstu vinnuveitendum hvers lands. Þar er Ísland engin undantekning og er Keflavíkurflugvöllur mikilvægur drifkraftur vaxtar fyrir allt hagkerfið,“ segir Hirsh.

Bendir hann á að miklar sveiflur einkenni hagkerfið og atvinnulíf á Suðurnesjum. Eftir brotthvarf varnarliðsins, bankahrunið, gjaldþrot Wow air og nú í heimsfaraldrinum hafa Keflavík og nærliggjandi svæði ávallt farið verr út úr ástandinu en íslenska hagkerfið í heild sinni.

Því er lögð áhersla á sjálfbærari byggða- og atvinnuþróun og telur hann brýnt að fá fjölbreyttari tekjustofna á téðu svæði til þess að tryggja stöðugleika.

Heimild: Vb.is