Home Fréttir Í fréttum Um 100 íbúðir og atvinnuhúsnæði á Kirkjusandsreitnum

Um 100 íbúðir og atvinnuhúsnæði á Kirkjusandsreitnum

194
0
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Blanda af íbúða- og atvinnuhúsnæði verður byggt á Kirkjusandsreitnum, þar sem hús fyrrverandi höfuðstöðva Íslandsbanka stendur.
Tillaga að nýju skipulagi á svæðinu verður væntanlega kynnt á næstu vikum og þar verða fjölbýlishús með um eitt hundrað íbúðum.
Fyrirhugað er að framkvæmdir hefjist á næsta ári.

Þetta segir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, dótturfélags Íslandsbanka, sem hefur umsjón með uppbyggingu á svæðinu.

<>

Í sumar var haldin samkeppni um framtíðarskipulag svæðisins. Fjórar tillögur bárust og dómnefnd, sem í voru fulltrúa Íslandsbanka og Reykjavíkurborgar, hefur valið eina þeirra.

„Húsið verður ekki rifið fyrr en nýtt skipulag verður orðið tilbúið,“ segir Kjartan. „Þó búið sé að velja eina tillögu, þá mun þetta ferli taka nokkra mánuði og húsið væntanlega ekki rifið fyrr en snemma næsta sumar.

Kynningin á skipulaginu hefur tafist vegna kórónuveirufaraldursins. Nú erum við og Reykjavíkurborg að ræða útfærslu hennar og hugsanlega verður hún rafræn,“ segir Kjartan.

Hann segir að um helmingur þess fermetrafjölda sem verður byggður á svæðinu verði íbúðir. Á svæðinu verða eingöngu fjölbýlishús og Kjartan segir að þau verði ekki háreist. Hinn helmingurinn verður skrifstofu- og atvinnuhúsnæði. Að sögn Kjartans hafa allar aðrar byggingar á reitnum verið fjarlægðar.

Fyrir rúmu ári síðan sóttu Íslandssjóðir um leyfi til að rífa Íslandsbankahúsið, en það hefur staðið autt síðan árið 2017 þegar mygla fannst í því. Húsið var hraðfrystihús útgerðafélaganna Júpíter hf. og Mars hf  í áratugi, frá 1948 til 1973.

Ísfélagið í Vestmannaeyjum keypti húsið eftir eldgosið í Eyjum og rak það til árins 1975. Þá eignaðist Samband íslenskra samvinnufélaga það og stóð til að breyta því í höfuðstöðvar Sambandsins.

Íslandsbanki eignaðist svo húsið og aðrar eignir á lóðinni árið 1995.

Heimild: Ruv.is