Home Fréttir Í fréttum Mal­biks­stöð­in reis á ógn­ar­hrað­a

Mal­biks­stöð­in reis á ógn­ar­hrað­a

453
0
Baldur Þór Halldórsson, framkvæmdastjóri Malbiksstöðvarinnar. Mynd: Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Það er afrek að hafa náð að opna malbiksstöð á sjö mánuðum og er það mest krefjandi verkefni sem ég hef fengist við hingað til,“ segir Baldur Þór.

<>

Baldur Þór Halldórsson, framkvæmdastjóri Malbiksstöðvarinnar, segir að það hafi verið krefjandi að setja upp malbiksstöð á sjö mánuðum. „Malbiksstöðin fór upp á ógnarhraða,“ segir hann.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Besti tíminn eru samverustundir með fjölskyldunni, hvort sem það er hið daglega amstur eða annað. Ég hef mjög gaman af stangaveiði og stunda hana þegar rými gefst, einnig er hestamennska hluti af lífi okkar fjölskyldunnar. Það er ótrúlegt hvaða áhrif reiðtúr hefur eftir annasaman dag.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Á morgnana gildir að vera snöggur að undirbúa sjálfan sig með einn kaffibolla í hönd. Mestur tíminn fer svo í að koma börnunum af stað í skóla og leikskóla með tilheyrandi föggur til að sinna því sem dagurinn hefur upp á að bjóða, tómstundir og nám. Krefjandi og gefandi stundir, morgnarnir okkar.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Ég ætla að segja Konan í dalnum og dæturnar sjö. Sögur af Íslendingum á árum áður finnast mér heillandi og þá sérstaklega áhrifaríkt þegar dugnaður og seigla okkar Íslendinga kemur fram.

Þessi saga nær að snerta mann dýpra þar sem hetjan er kona og það vantar alltof oft að fjalla sé um hetjudáðir kvenna á árum áður, ekki síður en í dag.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Án efa að setja upp malbiksstöð á sjö mánuðum. Þetta verkefni hefur verið í deiglunni hjá Fagverk verktökum í nokkur ár, en þeir ákváðu að fara af stað með verkefnið í október 2019.

Það er afrek að hafa náð að opna malbiksstöð á svo skömmum tíma og er það mest krefjandi verkefni sem ég hef fengist við hingað til. Fyrir utan hönnun, skipulagsbreytingar, skipulagningu og annað utanumhald sem var mjög krefjandi, var framkvæmdaferlið hreint út sagt með ólíkindum og ég hef ekki trú á því að til séu margar hliðstæður fyrir því á Íslandi í dag.

Gríðarlegur kraftur Fagverk verktaka gerði það að verkum að þetta hafðist og Malbiksstöðin byrjaði að blanda malbik í byrjun maí á Esjumelum.

Hvaða áskoranir eru fram undan?

Malbiksstöðin fór upp á ógnarhraða og það verður áskorun að stilla af starfsemina fyrir næstkomandi tímabil, sem mun gera fyrirtækið betur í stakk búið að takast á við þá samkeppni sem er á okkar markaði.

Einnig eru fram undan mjög spennandi verkefni sem snúa að umhverfismálum fyrirtækisins og ber hæst að nefna viljayfirlýsingu sem undirrituð var við Sorpu, um kaup á allt að einni milljón Nm3 af metani sem við ætlum að nota til að framleiða umhverfisvænasta malbik á Íslandi.

Hvernig er rekstrarumhverfið að taka breytingum og hvaða tækifæri felast í breytingunum?

Sífellt meiri áhersla er á umhverfismálin og hefur sú þróun færst yfir í malbiksgeirann og sjáum við það einna helst í breytingum á þeim efnum sem notuð skulu við vegagerð.

Strax í upphafi þessa verkefnis var ákveðið að umhverfisstefna fyrirtækisins væri ein af meginstefnum okkar. Tækifærin felast í þróun og nýsköpun sem hefur þegar hafist hjá Malbiksstöðinni. Til að mynda með nýjum tækjabúnaði sem ekki hefur áður verið á Íslandi, samstarfi okkar við Sorpu og fleira þessu tengt.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Ætli ég myndi ekki leita í eitthvað sem væri kunnuglegt og taka aftur upp múrskeiðina.

Stiklað á stóru
Nám:

Sveinspróf – Múrari

Byggingatæknifræði Bsc

Byggingaverkfræði Msc

Í grunninn er ég múrari og útskrifaðist með sveinspróf tvítugur. Í hruninu fór ég í frumgreinadeild Tækniskólans. Konan mín dró mig svo til Kaupmannahafnar þar sem hún var að fara í sitt framhaldsnám. Þar fór ég í byggingatæknifræði við Denmarks Tekniske Universitet og í framhaldinu tók ég master í byggingaverkfræði.

Störf:

Múrverk

Ráðgjafi – Byggingaverkfræði (Danmörk)

Hönnuður – Byggingaverkfræðingur (Ísland)

Tæknimaður Fagverk verktaka

Framkvæmdastjóri Malbiksstöðvarinnar í dag

 

Heimild: Frettabladid.is