Lög um hlutdeildarlán tóku gildi 1. nóvember síðastliðinn og í reglugerðinni er kveðið á um útfærslu lánanna. Fréttastofa fjallaði um það í byrjun október að samkvæmt drögum að reglugerðinni væri hámarksverð íbúða svo lágt að það væri erfitt að finna fasteignir til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem uppfylltu skilyrðin.
Aðeins 87 nýjar íbúðir hefðu verið seldar á höfuðborgarsvæðinu fyrstu átta mánuði ársins sem uppfylltu skilyrði um hlutdeildarlán. Ásmundur Einar sagði að skilyrðin yrðu ekki rýmkuð, heldur þyrfti markaðurinn að svara kalli úrræðisins.
Undanþága frá hámarksverði og stærð fyrsta árið
Í nýju reglugerðinni er kveðið á um heimild til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, fram til ársloka 2021, til að veita undanþágu frá hámarksverði á höfuðborgarsvæðinu. Undanþágan er bundin við þau tilvik og þau svæði þar sem byggingarkostnaður er hærri en almennt gerist vegna aðstæðna á byggingarstað eða skilmála á byggingarreit.
Hækkunin getur þó ekki numið meiru en tíu prósentum af hámarksverði íbúðar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun getur óskað eftir frekari upplýsingum og gögnum frá byggingaraðila um það í hverju hærri byggingarkostnaður felist.
„Já, við gerðum bara tímabundið ákveðna breytingu í eitt ár til að rýmka aðeins heimildir hvað varðar upphæðamörk íbúða. Svo til lengri tíma litið gerum við ráð fyrir að sömu tekjumörk í meginatriðum haldi sér.
Það er líka í ljósi þess að núna er þetta búið að vera opið í örfáa daga og við erum þegar búin að sjá koma á sjöunda hundrað íbúðir skráðar frá byggingaverktökum sem eru í pípunum, sem á nú eftir að fara yfir af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, og þar af eru tvö hundruð og fjórtán skráðar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ásmundur Einar í samtali við fréttastofu.
Þá er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heimilt, fram til ársloka 2021, að samþykkja álag á hámarksverð íbúða sem þegar hafa verið byggðar, íbúða sem eru í byggingu eða sem fyrir liggja samþykkt byggingaráformum við gildistöku reglugerðarinnar sé verkefni svo langt á veg komið eða þess eðlis að óhagkvæmt sé að breyta stærðum til samræmis við hagkvæmniviðmið og íbúðirnar uppfylla að öðru leyti skilyrði reglugerðarinnar.
Ásmundur segir að með því sé aukinn sveigjanleiki í fermetrafjölda. „Sem tryggir að ef einhverjir hafi verið búnir að hanna og verið komnir af stað með framkvæmdir rétt undir fermetramörkum, þá erum við að skapa ákveðinn stiglausan sveigjanleika í upphæðunum sem geta komið. En það er einungis til eins árs,“ segir hann.
Lánin gilda aðeins fyrir kaup á nýjum íbúðum
Hlutdeildarlánin hafa verið gagnrýnd fyrir að gilda einungis við kaup á nýjum íbúðum. Aðspurður hvort úrræðið setji þeim óþarfa skorður sem þurfa á hlutdeildarlánum að halda segir Ásmundur nauðsynlegt að lánin stuðli að uppbyggingu nýrra íbúða.
„Það er auðvitað þannig að á fyrstu stigum þessa máls komu miklar gagnrýnisraddir víða að um að það mættu ekki koma úrræði sem eingöngu virkuðu á eftirspurnarhliðinni.
Heldur yrði að tryggja aukið framboð íbúða. Þess vegna fórum við af stað í að skipuleggja úrræði sem tryggir að það verði byggðar hér nýjar íbúðir,“ segir hann.
Undanþága gildir aðeins utan höfuðborgarsvæðisins
Í reglugerðinni segir að þrátt fyrir skilyrði um að íbúðir skuli vera nýjar sé heimilt að veita hlutdeildarlán til kaupa á hagkvæmum eldri íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins í húsnæði sem hlotið hefur gagngerar endurbætur, enda sé ástand íbúðar þannig að jafna megi til ástands nýrrar íbúðar.
Aðspurður hvers vegna undanþágan gildi einungis um íbúðir utan höfuðborgarsvæðisins segir Ásmundur að það hafi verið gert til að tryggja sveigjanleika gagnvart landsbyggðinni.
„Já, þetta er breyting sem kom inn í meðferð þingsins. Það var þannig að þetta átti einungs við um nýjar íbúðir þegar frumvarpið var lagt fram.
Þingið ákvað að gera á þessu breytingar til að skapa ákveðinn sveigjanleika gagnvart landsbyggðinni vegna þess að þar væri mikið af húsnæði, gömlum skólabyggingum, skrifstofubyggingum og annað í minni þorpum sem væri mjög heppilegt til að breyta í íbúðarhúsnæði, með miklum breytingum og framkvæmdum. Og þingið ákvað þess vegna að gera þessa breytingu,“ segir Ásmundur.
Að minnsta kosti 20 prósent til þeirra sem hafa samþykkt kauptilboð utan höfuðborgarsvæðisins
Samkvæmt reglugerðinni gildir jafnframt að að minnsta kosti 20 prósent lánanna skuli fara til þeirra sem eru með samþykkt kauptilboð á íbúð utan höfuðborgarsvæðisins. Aðspurður hvort reglugerðin forgangsraði í þágu landsbyggðarinnar frekar en allra ungra og tekjulágra á landinu segir Ásmundur að þingið hafi viljað tryggja að eitthvað af íbúðunum færi út á land.
„Það er þannig að þetta er líka eitt af því sem kom inn í meðferð þingsins. Þingið hafði áhyggjur af því að það væri ekki nógu neglt niður að það færi örugglega eitthvað út á land af þessum íbúðum. Og þess vegna var ákveðið að gera þessa breytingu líka. Þessi tvö atriði voru ekki svona þegar frumvarpið var lagt fram,“ segir hann.
Segist fyrstur manna til að skoða breytingar
Ef eftirspurn eftir lánunum verður umfram framboð verða umsækjendur dregnir af handahófi. Spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að úrræðið nýtist þá ekki endilega þeim sem mest þurfa á því að halda segist Ásmundur Einar vera fyrstur manna til að íhuga breytingar á reglugerðinni ef reynslan sýnir að þörf sé á úrbótum.
„Já, það er auðvitað þannig að við erum að tryggja ákveðinn íbúðafjölda og ákveðið fjármagn sem við ætlum að veita í þetta árlega. Það er úr vöndu að ráða þegar við erum að búa til slíkt úrræði. Við vissulega vitum ekki hvað verða margar íbúðir í boði. Við vissum hvaða fjármagn yrði tryggt á hverju ári.
Svo er spurning hvaða leiðir á að nota til að gera slíkt. Þetta var lendingin að gera það með þessum hætti en þetta er auðvitað atriði sem kann að vera, líkt og fleira, hugsanlega tilefni til að skoða þegar reynsla kemst á það.
En þegar við erum með stóra og róttæka kerfisbreytingu eins og hér er í húsnæðismálum þá væri í raun óeðlilegt ef við værum ekki tilbúin til að vakta það áfram og koma með breytingar. Og ég verð fyrstur manna til að vera tilbúinn til þess,“ segir Ásmundur.
Heimild: Ruv.is