Byggingafulltrúinn í Reykjavík hefur heimilað niðurrif á þremur húsum á svonefndum Höfðatorgsreit.
Jafnframt hefur lóðarhafinn, Höfðatorg ehf., lagt fram fyrirspurn til borgarinnar um hvort heimilað verði að byggja átta hæða atvinnuhús á lóðinni að niðurrifi loknu.
Höfðatorgsreitur afmarkast af fjórum götum: Borgartúni, Katrínartúni (hét áður Höfðatún), Bríetartúni (áður Skúlagata) og Þórunnartúni (áður Skúlatún).
Á árum áður voru á þessu svæði verslunar- og þjónustufyrirtæki í eldri húsum, sem urðu að víkja fyrir nýjum byggingum.
Þarna risu í staðinn fimm stórar byggingar. Tvær þær hæstu eru turninn á Höfðatorgi, 19 hæðir, og Fosshótel Reykjavík, stærsta hótel landsins, 16 hæðir. Þar eru 320 herbergi.
Að auki eru á reitnum tvær skrifstofubyggingar og 12 hæða fjölbýlishús með 94 íbúðum. Í skrifstofubyggingunum er að finna fjölbreytta starfsemi, svo sem banka, landlækni, þjóðkirkjuna og mörg svið Reykjavíkurborgar.
Húsin þrjú, sem nú verða rifin, eru þau síðustu af eldri húsunum á reitnum sem enn standa. Þau eru í eigu Höfðatorgs ehf., að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is