Home Fréttir Í fréttum Endurbótum höfuðstöðva OR ljúki 2023

Endurbótum höfuðstöðva OR ljúki 2023

83
0
Mynd: Orkuveitan / Hornsteinar

Heildarkostnaður við höfuðstöðvar OR stefnir í að verða þreföld kostnaðaráætlun eftir endurbætur fyrir ríflega 3 milljarða.

<>

Það er þreföld kostnaðaráætlun hússins miðað við verðlag dagsins í dag, en strax í upphafi fór kostnaðaráætlun við byggingu hússins ríflega tvöfalt fram úr áætlun.

Endurbygging höfuðstöðva OR er ætlað að ljúka sumarið 2023, en útboð vegna vinnu við endurbyggingu eins af húsum Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls í Reykjavík er nú hafið.

Áður hafði endurhönnun þess verið boðin út, sem fara þurfti út í vegna mikilla rakaskemmda á vesturhluta höfuðstöðvanna, sem byggðar voru með nýstárlega yfirhallandi útveggjum, en nú verða útveggirnir byggðir á hefðbundinn lóðréttan hátt.

.

Upphafleg kostnaðaráætlun 2,3 milljarðar

Eins og sagt var frá í fréttum haustið 2017 þá sagði húsasmíðameistari að viðvaranir hans um ónýt gólf í húsinu hefðu verið hunsaðar og hann látinn leggja parket á hráblautt gólf sem skipta þurfti um fljótlega á ný.

Upphafleg kostnaðaráætlun á byggingu höfuðstöðvanna hljóðaði upp á 2,3 milljarða árið 2002, sem samsvarar ríflega 5 milljörðum króna á verðlagi dagsins í dag.

Í skýrslu úttektarnefndar um OR frá árinu 2012 kom fram að árið 2010 hefði heildarkostnaðurinn við framkvæmdina numið 8,5 milljörðum króna, sem samsvarar 11,6 milljörðum króna á verðlagi dagsins í dag.

Eftir að húsið var selt árið 2013 á 5,1 milljarð króna, og endurleigt til 20 ára, ákvað Orkuveitan að kaupa húsið á ný árið 2017 á ný á 5,5 milljarða, þó húsið væri mikið til ónýtt því samkvæmt sölusamningnum hafði Orkuveitan áfram borið ábyrgð á viðhaldi hússins.

Endurbætur fyrir hálfan milljarð skiluðu engu

Árið 2015 uppgötvuðust alvarlegar rakaskemmdir í útveggjum hússins, til viðbótar við leka sem vitað var um árið 2004 og 2009. Við tók langt og strangt ferli sem nú sér loks fyrir endann á segir í tilkynningu Orkuveitunnar, en árið 2016 var farið í viðgerðir sem kostuðu 460 milljónir á húsinu en þær skiluðu ekki árangri.

Eftir ítarlega valkostagreiningu var ákveðið að fjarlægja útveggina og byggja nýja lóðrétta útveggi í stað þeirra slútandi sem nú eru, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá voru um sumarið 2017 lagðar fram sex mögulegar lausnir á vanda hússins.

Þær lausnir sem fela í sér niðurrif og endurbyggingu útveggja vesturhússins eins og farið verður í voru sagðar hljóða upp á 2,4 til 2,9 milljarða króna á verðlagi ársins 2017, sem miðað við verðlag dagsins í dag samsvarar allt að 3,2 milljarða króna.

Vonast er til að hægt verði að skrifa undir verksamninga á vordögum 2021 og endurbyggt hús verði tilbúið um sumarið 2023. Þar með mun húsið kosta á verðlagi dagsins í dag um 15,3 milljarða króna í byggingarkostnað, viðhaldi og endurbótum ef allt ofandregið er tekið saman.

Myndband sýnir breytingar á húsnæðinu

Burðarvirki hússins er ekki í útveggjunum heldur í súlum og gólfum og því er hægt að skipta um veggina. Við hönnun endurbyggingarinnar var lögð áhersla á hógværara útlit hússins, hagkvæmni, notagildi og sveigjanleika sem þjónar starfsemi OR og viðskiptavina til framtíðar.

Orkuveita Reykjavíkur segist hafa kappkostað að miðla upplýsingum til almennings um framgang verksins og í eðlilegu árferði hefði verið boðað til blaðamannafundar þar sem endurbæturnar væru kynntar og spurningum svarað.

Vegna kórónuveirufaraldursins hafi hins vegar sú leið verið farin að útbúa myndband þar sem þeir Bjarni Bjarnason forstjóri og Grettir Haraldsson verkefnisstjóri fara yfir stöðuna og skrefin fram undan.

Jafnframt sýni myndbandið hvernig útlit þessa áberandi húss mun breytast, en myndbandið er að finna á sérstakri upplýsingasíðu um framkvæmdina á vef OR. Þar er einnig að finna ljósmyndir og nánari upplýsingar um tjónið sem varð á húsinu.

Heimild: Vb.is