Home Fréttir Í fréttum Fráveitu­framkvæmdir á Vesturlandi hannaðar af Verkís

Fráveitu­framkvæmdir á Vesturlandi hannaðar af Verkís

162
0
Mynd: Verkís

 

<>

Á árunum 2006-2008 vann Almenna verkfræðistofan (nú Verkís) að hönnun fráveitukerfis OR á Akranesi, Borgarnesi og Kjalarnesi.

Um var að ræða þrjá verkhluta:

Hreinsistöðvar, dælustöðvar og safnræsi
Dælu- og hreinsibúnaður
Sjólagnir

Verkframkvæmdir voru boðnar út á árunum 2007 og 2008 og hófust í kjölfarið. Þeim var hins-vegar ekki að fullu lokið þegar þær voru settar á bið í lok árs 2010 í kjölfar endurskipulagningar á rekstri OR.

Staða verksins var því þannig að lokið var við að byggja hreinsistöðva byggingarnar, leggja nær öll safnræsi, byggja dælustöðvar og dælubrunna, en hreinsibúnaður var eingöngu kominn inn í stöðvarnar, en óuppsettur. Vinna við sjólagnir þ.e. útræsi frá hreinsistöðvunum ásamt yfirfalls-útræsum var einnig eftir.

Vinna við sjólagnir hófst nú á vormánuðum og stendur enn yfir. Verktakafyrirtækið Ístak vinnur að þeim verkframkvæmdum. Nú þegar hafa sjólagnir verið settar niður á Kjalarnesi, en eftir er vinna í lokafrágangi. Þá er nú í gangi vinna við sjólagnir á Akranesi, og hefur m.a. verið unnið í sumar að því að byggja þrýstibrunn í fjöruborðinu skammt frá hreinsistöðinni. Vinna við sjólagnir í Borgarnesi er ekki hafin, en mun hefjast næsta vor.

Sjólögnin á Akranesi er um einn og hálfur kílómeter að lengd, úr plasti með þvermál 630 mm. Endi lagnarinnar verður á um 18-19 metra dýpi. Næst landi er lögnin grafin í sjávarbotninn, en utar liggur hún á botninum og er að hluta til fest í botninn vegna straumáhrifa.

Sjólögnin á Kjalarnesi er ríflega einn kílómeter að lengd, með þvermál 280 mm. Endi lagnarinnar fer á um 13-14 metra dýpi. Sjólagnir í Borgarnesi eru annarsvegar 500mm þrýstilögn frá Bjarnabraut yfir í Brákarey og hinsvegar 450mm aðalútræsislögn sem nær um 800m út í Borgarfjörðinn. Lögnin verður grafin að mestu í sandeyrar en endi lagnarinnar verður á um 5-6 metra dýpi.

Á árinu 2016 verður einnig unnið að uppsetningu vélbúnaðar í öllum umræddum hreinsistöðvum.

Áætlað er að hið nýja frárennsliskerfi Orkuveitunnar bæði á Akranesi, í Borgarnesi og á Kjalarnesi verði tilbúið í árslok 2016, og verði þá gangsett.

Heimild: Verkís