Home Fréttir Í fréttum Áhuginn kom okkur í opna skjöldu

Áhuginn kom okkur í opna skjöldu

402
0
Mynd: mosfellingur.is

Byggingafélagið Bakki hefur byggt tólf tveggja herbergja íbúðir við Þverholt 21 sem Fasteignasala Mosfellsbæjar auglýsti til sölu í síðstu viku.

<>

Til sölu voru 12 fullbúnar 41-45 m2, tveggja herbergja íbúðir. Auglýst söluverð íbúðanna vakti mikla athygli, enda var ásett verð 25,9 – 28,5 milljónir, sem er lang lægsta verð sem sést hefur á nýbyggðum íbúðum í langan tíma.

Lokað fyrir kauptilboð á degi tvö
Svo mikil var eftirspurnin eftir þessum íbúðum að á fyrstu tveimur dögunum komum 80 hópar af áhugasömum aðilum að skoða íbúðirnar og í hádeginu á degi tvö var ákveðið að loka fyrir frekari kauptilboð í eignirnar, en þá voru komin 48 kauptilboð í 12 íbúðir.

„Við áttum alveg von á því að þessar íbúðir myndu vekja athygli, sérstaklega þar sem verðið var afskaplega hagstætt,“ segir Einar Páll Kjærnested hjá Byggingafélaginu Bakka og bætir við að þessi mikli áhugi hafi komið þeim í opna skjöldu.

„Það sem var sérstaklega ánægjulegt var hversu mörg tilboð komu frá ungu fólki sem vildi kaupa sér sína fyrstu íbúð. Stór hluti var einmitt innfæddir ungir Mosfellingar.

Það hefði verið óskandi að fá tækifæri til að selja hinar 12 íbúðirnar í næstu blokk líka en því miður var ekki áhugi fyrir því í bæjarpólitíkinni. Þær íbúðir skulu leigðar út. Það er sorglegt þegar maður sér að pólitíkin kemur í veg fyrir að góðar hugmyndir verði að veruleika.“

Nýr áfangi hafinn í Helgafellshverfi
Í byrjun október lýkur Byggingafélagið Bakki byggingaframkvæmdum sínum á miðbæjarsvæðinu við Þverholt 21-31 og nýr kafli er hafinn við uppbyggingu áfanga IV í Helgafellshverfinu.

Þar eru nú risin fyrstu tvö fimm íbúða fjölbýlishúsin við Liljugötu 1 og 3, þetta eru sambærileg hús og Byggingafélagið Bakki byggði við Snæfríðargötu 1-9.

„Við reiknum með að sala á þessum húsum hefjist öðru hvoru megin við áramótin og afhending verði á fyrstu íbúðunum í áfanga IV næsta sumar.

Í næstu viku hefjum við svo uppbyggingu á tveimur átta íbúða fjölbýlishúsum við Liljugötu 5 og 7, en þar verðum við með 50 m2 tveggja herbergja íbúðir og 70 m2 þriggja herbergja íbúðir.

Uppbygging næstu 5-7 ár
Í áfanga fjögur í Helgafelli er áætlað að byggðar verði 188 íbúðareiningar í litlum fjölbýlishúsum, en einnig munum við byggja þarna raðhús og einbýlishús.

Verkefnið í Helgafelli verður 5-7 ár í uppbyggingu, en Byggingafélagið Bakki sér einnig um gatnagerð og allan frágang á opnum svæðum í áfanganum.

Heimild: Mosfellingur.is