Home Fréttir Í fréttum Harmi slegin yfir bana­slysinu á Kjalar­nesi

Harmi slegin yfir bana­slysinu á Kjalar­nesi

112
0
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. Fréttablaðið/Samsett

Mikil umræða hefur verið um öryggi vega hér á landi eftir banaslysið sem átti sér stað á Kjalarnesi í sumar. Forstjóri Vegagerðarinnar segir að markmiðið með umbótavinnu sé að koma í veg fyrir að slíkt slys eigi sér stað aftur.

<>

Starfsmenn Vegagerðarinnar segjast vera harmi slegnir yfir banaslysi sem átti sér stað á Kjalarnesi í júní. Nú sé unnið að umfangsmikilli endurskoðun á öllum ferlum sem lúti að yfirlögnum á vegum til að reyna að tryggja að slíkt slys eigi sér ekki stað aftur.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, en stjórnendur þar hafa sætt gagnrýni vegna slyssins.

Tveir bifhjólamenn létust í slysinu sem talið er að rekja megi til galla í malbiki sem var nýbúið að leggja á umræddan vegarkafla og gerði það að verkum að hann var mjög háll.

Lýstu yfir fullkomnu vantrausti

Bifhjólasamtökin Sniglar lýstu yfir fullkomnu vantrausti á hendur Vegagerðinni og forstjóra hennar fyrir helgi í kjölfar umfjöllunar fréttaskýringarþáttarins Kveiks. Var þar fjallað var um aðdraganda slyssins og annmarka á framkvæmdum í vegakerfinu. Fullyrtu sérfræðingar að malbik og klæðningar á vegum hafi ítrekað skapað hættu fyrir ökumenn.

Beindist vantraustsyfirlýsing Sniglanna meðal annars að því að ekki hafi verið gripið inn í þegar kvartað var undan sleipu malbiki á slysstað daginn áður en það átti sér stað.

Hefði ekki átt að fara framhjá reynslumiklum aðilum

Heið­rún Finns­dóttir, dóttir Finns Einars­sonar sem lést í slysinu á­samt konu sinni, Jóhönnu Sig­ríði Sigurðar­dóttur, sagði í Kastljósi í gær að faðir hennar hafi haft miklar áhyggjur af lélegu malbiki á vegum landsins.

Þá lýsti Heið­rún ó­á­nægju sinni með frá­gang Vega­gerðarinnar og verk­taka í sumar.

„Það ætti öllum að vera ljóst að þarna er stór­hættu­legt mal­bik á ferðinni því það er spegil­slétt. Bílarnir sem stoppuðu í stutta stund tóku tjöruna með sér þegar þeir fóru af stað. Þetta átti ekkert að fara fram hjá svona reynslu­boltum,“ sagði hún í Kastljósi.

Augljóst samhengi milli galla og aðstæðna á slysstað

Í áðurnefndri yfirlýsingu Bergþóru segir að rannsóknir á viðnámi vegarins eftir slysið hafi sýnt að verkið hafi ekki uppfyllt kröfur í útboðslýsingu og að umrætt malbik hafi ekki staðist útboðskröfur.

„Augljóst samhengi er milli þeirra galla og þeirra aðstæðna sem sköpuðust á slysstað.“

Þá segir forstjórinn að verkið sem um ræðir hafi verið framkvæmt af verktaka með mikla reynslu.

„Sú reynsla kom því miður ekki í veg fyrir þær afleiðingar sem við öll þekkjum.“

Heimild: Frettabladid.is