Home Fréttir Í fréttum Mikil uppbygging í Hlíðum og Árbæ

Mikil uppbygging í Hlíðum og Árbæ

311
0
Á sama tíma og íbúðum í byggingu vestan Snorrabrautar fækkar verulega, fjölgar þeim mikið í Bústaðahverfi, Laugardal, Háaleiti og Hlíðum. Mynd: Haraldur Guðjónsson

Íbúðum í byggingu hefur fækkað mikið í miðbæ og mörgum úthverfum höfuðborgarsvæðisins, og heilt yfir.

<>

Þrátt fyrir smávægilega tilfærslu þungamiðju uppbyggingar frá miðbæ Reykjavíkur segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, enn áhyggjuefni hve hátt hlutfall íbúða í byggingu er á dýrustu svæðunum.

Á meðan uppbyggingin einblíni á þéttingu sem skili dýrum íbúðum á markað, sé þörfin mest á hagkvæmari íbúðum á lægra verði sem aðeins sé hægt að bjóða fjær miðbænum.

Í nýliðnum mánuði framkvæmdu samtökin árlega hausttalningu íbúða í byggingu, en einnig er talið á vorin. Heilt yfir fækkaði íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum um 18%, en á fyrstu byggingarstigum nam fækkunin 41%.

29% fækkun vestan Snorrabrautar

Sé hlutfall íbúða í póstnúmerum 101-108 af heildarfjölda á höfuðborgarsvæðinu skoðað eykst það raunar um 2% milli ára, úr 40 í 42%, vegna mikillar uppbyggingar í Hlíðunum. Íbúðum í byggingu vestan Snorrabrautar fækkar hins vegar um 29% í 848, og hlutfall þeirra af heildinni á höfuðborgarsvæðinu fer úr 25% í 21%.

Mikil uppbygging á sér stað í Árbæ samkvæmt talningunni, en íbúðum í byggingu þar fjölgar um hátt í fjórðung í 436 íbúðir, sem er yfir 10% allra íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðum í byggingu í Grafarvogi og Grafarholti fækkar hins vegar um svipað hlutfall, og eru nú aðeins 264.

Íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur fækkar um 22%, og hlutdeild þeirra fellur úr 43% í 39%. Tæplega þriðjungsfækkun er í bæði Kópavogi og Mosfellsbæ. Samanlagt eru nú rétt rúmar þúsund íbúðir í byggingu þar samanborið við yfir 1.500 á sama tíma í fyrra, og hlutfall þeirra af heild fellur úr 31% í 25%. Hafa verður þó í huga að mjög mikil uppbygging hefur átt sér stað í sveitarfélögunum tveimur síðustu ár.

Mikil fækkun átti sér einnig stað í Breiðholtinu, en þar eru afar fáar íbúðir í byggingu, enda með þéttbýlustu svæðum höfuðborgarsvæðisins. Í Garðabæ og Hafnafirði varð minnst breyting milli ára. Íbúðum í byggingu fjölgaði um 5%, og hlutdeild þeirra hækkaði úr 11,7% í 14,4%.

Heimild: Vb.is