Home Fréttir Í fréttum Skortur á lóðum hindrar hagkvæma uppbyggingu húsnæðis

Skortur á lóðum hindrar hagkvæma uppbyggingu húsnæðis

175
0
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Mynd: Fréttabladid

Um 80 prósent félagsmanna SI á mannvirkjasviði telja að skortur á lóðaframboði komi í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu og 79 prósent telja að hagkvæmt húsnæði verði ekki byggt á þéttingarreitum.

<>

Mikill meirihluti félagsmanna í Samtökum iðnaðarins telur að skortur á lóðaframboði komi í veg fyrir hagkvæma uppbyggingu húsnæðis, og einnig að hagkvæmt húsnæði verði ekki byggt á þéttingarreitum. Þetta eru niðurstöður úr nýrri könnun sem var gerð á meðal félagsmanna SI á mannvirkjasviði

„Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að bæta þarf verulega starfsumhverfi byggingariðnaðarins og ný talning SI á íbúðum í byggingu, sýnir að fram undan sé ófremdarástand á næstu árum, með skorti á húsnæði með tilheyrandi vandræðum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við Markaðinn.

Um 80 prósent félagsmanna SI á mannvirkjasviði telja að skortur á lóðaframboði komi í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu og 79 prósent telja að hagkvæmt húsnæði verði ekki byggt á þéttingarreitum, en í stefnu borgarinnar eru nánast eingöngu þéttingarreitir í boði.

Það blasir við að ef vilji er fyrir því að byggja hagkvæmara húsnæði þarf að bjóða upp á fjölbreyttara lóðaúrval, af hendi sveitarfélaganna.

„Það er mikið í húfi að vel takist til í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og þar er hlutur ríkisins og sveitarfélaganna mikill. Niðurstöðurnar benda til þess að atvinnulífið sjái fjölmörg tækifæri til að gera betur, en það er á hendi sveitarfélaganna að stýra því hvar er byggt og ríkisins að skapa viðunandi skilyrði til húsnæðisuppbyggingar,“ segir Sigurður.

Samtökin kalla eftir því að mikilvægar umbætur sem átakshópur í húsnæðismálum setti fram í byrjun síðasta árs verði kláraðar, en þar má meðal annars finna breytingar á mannvirkjalögum, endurskoðun á umhverfi skipulagsmála og innleiðingu á rafrænni stjórnsýslu, til að draga úr sóun og töfum og bæta aðgengi að réttum upplýsingum.

Sigurður segir niðurstöðurnar gefa til kynna að ekki fari saman hljóð og mynd. Hlutdeildarlán geri kröfu um kaup á hagkvæmu húsnæði og stefna Reykjavíkurborgar hafi verið sú að bjóða nánast eingöngu þéttingarreiti undir uppbyggingu húsnæðis.

„Það blasir við að ef vilji er fyrir því að byggja hagkvæmara húsnæði þarf að bjóða upp á fjölbreyttara lóðaúrval, af hendi sveitarfélaganna,“ segir Sigurður.

Einnig segja 90 prósent félagsmanna SI að lækkun stýrivaxta sé ekki að skila sér í vöxtum lána sem veitt séu til framkvæmda og 59 prósent segja að aðgengi að fjármögnun sé takmarkað og hamli fjárfestingum.

Sigurður segir að þetta sé „skýr krafa um að vaxtaálagið gagnvart fyrirtækjum hjá viðskiptabönkunum lækki, en það hefur hækkað verulega á undanförnum misserum.“

Heimild: Frettabladid.is