Home Fréttir Í fréttum Ekki tilefni til að rífa Fossvogsskóla

Ekki tilefni til að rífa Fossvogsskóla

120
0
Mynd: Skjáskot - Já.is
Reykjavíkurborg telur að ekki séu forsendur til að taka ákvörðun um að rífa Fossvogsskóla.
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði í morgun að hún vilji að skólinn verði rifinn til að uppræta myglu í skólanum. Von er á lokaskýrslu lokaúttektar frá Verkís í vikunni.

Reykjavíkurborg sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem segir að í kjölfar sýnatöku og mælinga í skólanum og  kvartanna starfsfólks og nemenda hafi verið ráðist í endurbætur á sínum tíma.

<>

Þær eru listaðar upp og snúa að endurnýjum salerna, málun, endurnýjun gólfefna, innréttinga, nýrri loftræstingu og fleira. Einnig var ráðist í að laga þak tveggja álma.

Móðir stúlku sem gengur í skólann sagði í viðtali við Fréttablaðið í morgun að dóttir hennar finni ennþá fyrir einkennum þar sem hún finni ekki fyrir annars staðar.

Framkvæmdir kostuðu hundruð milljóna

Miklar endurbætur voru gerðar á Fossvogsskóla í fyrra vegna rakaskemmda. Sýnataka sem gerð var í apríl í fyrra leiddi í ljós að mjög varhugaverðir myglusveppir væru í byggingunni.

Kostuðu framkvæmdirnar borgina hundruð milljóna. Myglan var það alvarleg að skólanum var lokað um tíma og öll starfsemin flutt í Kópavog á meðan endurbætur stóðu yfir.

Von á lokaskýrslu frá Verkís

Í tilkynningu Reykjavíkurborgar kemur fram að Fossvogsskóli var opnaður að nýju þá um haustið en í desembermánuði sama ár varð vart við leka með fram þakglugga.

„Farið var í endurbætur og sýnataka og mælingar framkvæmdar að nýju nú í sumar. Niðurstaða þeirra mælinga gefa ekki tilefni til að fara í frekari framkvæmdir.

Lokaúttekt Verkís lá fyrir nú í ágústmánuði en von er á lokaskýrslu Verkís um málið nú í vikunni þar sem jafnframt verður að finna niðurstöðu Náttúrufræðistofnunar Íslands á tegundagreiningu þeirra sýna sem tekin voru nú í sumar.

Í lokaúttekt Verkís var ekki mælt með frekari framkvæmdum en næstu skref verða ákveðin þegar lokaskýrsla Verkís liggur fyrir. Í því ferli sem að baki er hefur borgin ekki fengið þá ráðgjöf að rífa mannvirkið.

Þegar skólar eða önnur mannvirki eru rifin vegna rakaskemmda, þá eru þær ákvarðanir teknar að vel athuguðu máli í kjölfar mælinga og sýnatöku og ítarlegrar áhættugreiningar. Niðurstöður mælinga í Fossvogsskóla til þessa gefa ekkert tilefni til að skoða niðurrif skólans.“ segir í tilkynningunni.

Foreldrafélag Fossvogsskóla taldi á sínum tíma að borgaryfirvöld hefðu ekki gert viðunandi prófanir til að ganga úr skugga um að engin mygla væri lengur í húsnæði skólans. Nemendur hafi strax fundið fyrir einkennum þegar þeir sneru aftur í húsnæðið.

Heimild: Ruv.is