Sautján sendu inn tillögur – sex valin til að keppa
Í lok síðasta árs var auglýst hönnunarsamkeppni um hönnun brúar yfir Fossvog. Sautján hönnunar- og arkitektastofur sendu inn tillögur og sex voru svo valdir í sérstöku forvali til að taka þátt.
Hvert hönnunarteymi fékk þrjár milljónir króna fyrir þáttöku í keppninni. Að henni lokinni átti svo að semja við sigurvegarann um hönnun nýrrar brúar, sem verður hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar vegna Borgarlínu milli Hamraborgar í Kópavogi og Hlemms.
Fimm fyrirtæki kærðu og eiga rétt á skaðabótum
Fimm umsækjendur af þeim ellefu sem ekki voru valdir í forvalið kærðu valið til kærunefndar útboðsmála, sem í febrúar stöðvaði keppnina tímabundið.
Í júlí komst nefndin svo að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um val á þáttakendum yrði felld úr gildi, þar sem forendur fyrir valinu samrýmdust ekki lögum um opinber innkaup.
Voru forsendurnar taldar of almennar og matskenndar. Vegagerðin var dæmd til að greiða 900 þúsund krónur í málskostnað, auk þess sem hún er skaðabótaskyld gagnvart þeim sem kærðu. Málið gæti því orðið mjög kostnaðarsamt.
Segir úrskurðinn ekki fresta Borgarlínunni
Hrafnkell Proppé, verkefnastjóri Borgarlínunnar, segir að tekin verði ákvörðun um næstu skref í málinu eftir helgi.
„Það er vont að fá svona úrskurð. Það hefði líka verið betra ef nefndin hefði verið fljótari að klára sitt mál. En við lærum bara af þessu og þeir aðilar sem stóðu að þessari hönnunarsamkeppni munu þá bara þurfa að hugsa núna hvernig þeir geta tekið málið áfram,“ segir hann.
Ljóst er að það þarf að byrja hönnunarkeppnina upp á nýtt. Stefnt er að því framkvæmdum við brúna og Borgarlínuna á þessu svæði verði lokið árið 2023, og telur Hrafnkell að sá tímarammi standist þrátt fyrir úrskurðinn.
„Það hefur þau áhrif að hönnun á brúnni mun dragast eitthvað aðeins en ég held nú samt að þetta verði innan þess framkvæmdaramma sem okkur er gefinn.“
Heimild: Ruv.is