Vinnueftirlitið hefur um árabil tekið saman tölur um fjölda öryggisskoðana sem gerðar eru á byggingarkrönum.
Þessir vinalegu risar eru taldir ágætis vísbending um stöðu efnahagsmála hverju sinni, en nokkuð hefur dregist saman í byggingariðnaði síðasta misseri.
Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins, segir að síðasta úttekt hafi leitt í ljós 53% samdrátt í húsbyggingum, sem valdi nokkrum áhyggjum þar á bæ.
Um orsakir samdráttar segir Jóhanna að þar komi að margir samverkandi þættir.
Hún tiltekur að margar byggingar hafi verið á síðari stigum, en erfiðlega hafi gengið að selja íbúðir í hærri verðflokkum.
Það megi rekja til þess að þéttingarstefna auki byggingarkostnað en ákall markaðarins sé fremur eftir ódýrari íbúðum sem henti fyrstu kaupendum og tekjulægri.
Hún telur stefnu sveitarfélaga gagnrýniverða og segir að þörf sé á meiri sveigjanleika til að lækka byggingarkostnað.
Þessi staða hafi m.a. orðið til þess að verktökum gengur verr að fjármagna frekari uppbyggingu.
Heimild: Mbl.is