Íbúi við Brekkuhvarf í Kópavogi telur að bærinn fari fram með ofbeldi, varðandi hættulegan húsgrunn sem hefur staðið opinn í þrjú ár.
Bærinn tapaði deiliskipulagsmáli í héraðsdómi en áfrýjaði til Landsréttar. Íbúar í hverfinu eru langþreyttir á aðgerðarleysi bæjaryfirvalda og telja hættu stafa af grunninum.
Íbúar í nágrenni lóðar í Hvarfahverfi eru orðnir langþreyttir á aðgerðarleysi Kópavogsbæjar varðandi húsgrunn sem talið er að hætta stafi af.
Málið á sér langa forsögu. Í lok árs 2015 var tillaga að nýju deiliskipulagi kynnt þar sem til stóð að skipta lóðinni Brekkuhvarfi 20 í tvennt og koma fyrir öðru húsi á lóðinni.
Magnús Alfreðsson, sem býr í Brekkuhvarfi 22, segir að þær fyrirætlanir hafi strax verið gagnrýndar af eigendum nærliggjandi lóða.
„Ég kom því strax á framfæri að málsetningar væru rangar en það hunsuðu starfsmenn bæjarins. Það var greinilegt að lóðin var ekki mæld upp og því var þetta eitt allsherjar klúður,“ segir Magnús.
Þrátt fyrir mótmælin var deiluskipulagið samþykkt og að endingu hófst eigandi lóðarinnar handa við að grafa húsgrunn undir nýtt hús.
„Þá voru hafðar hraðar hendur og fékkst lögbann frá sýslumanni á framkvæmdirnar. Það lögbann stendur enn,“ segir Magnús.
Tæp þrjú ár eru frá því að lögbannið var sett en í millitíðinni hafa Kópavogsbær og eigandi lóðarinnar tapað dómsmáli í héraði. Þar var deiliskipulagið úrskurðað ógilt.
„Nágrannar mínir höfðuðu þetta mál og höfðu sigur, enda um borðliggjandi mál að ræða. Þetta var vitlaust mælt frá byrjun og því passaði húsið ekki á lóðina,“ segir Magnús.
Hann segist hafa vonast til þess að bærinn sæi að sér í kjölfarið og viðurkenndi að mistök hafi verið gerð. „Við vonuðumst að minnsta kosti til þess að bærinn myndi moka ofan í grunninn eða að lágmarki girða hann af.
Það hefur ekki verið gert og skýlir bærinn sér á bak við þá staðreynd að lögbannið sé enn í gildi. Það gildir þó aðeins á framkvæmdirnar og ætti að mínu mati ekki við ef lóðinni verður komið í samt horf eða hún gerð hættuminni,“ segir Magnús.
Kópavogsbær áfrýjaði niðurstöðu í héraði til Landsréttar, sem Magnús segir að hafi verið vonbrigði. „Það er að mínu mati útilokað að Landsréttur komist að annarri niðurstöðu í málinu.“
Á meðan málið velkist um í dómskerfinu stendur enn gapandi sárið í lóðinni við Brekkuhvarf. „Þetta stórhættulegt að mínu mati sem og að verið er að skemma aðrar lóðir.
Þarna er leiksvæði skammt frá og það er talsvert fall fyrir börn ofan í grunninn. Á öðrum árstímum er vatn í grunninum sem getur einnig verið hættulegt. Þá er byrjað að hrynja úr minni lóð og hellur farnar að gliðna,“ segir Magnús.
Hann segist hafa verið í miklum samskiptum við Kópavogsbæ undanfarin misseri og meðal annars átt fund með Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra, fyrir nokkrum vikum.
„Mér var vel tekið á fundinum en fékk engin vilyrði fyrir því að eitthvað yrði gert í málinu. Að mínu mati er Kópavogsbær að nota vald sitt og skattpeninga til þess að beita íbúa ofbeldi,“ segir Magnús.
Heimild: Frettabladid.is