Vegagerðin auglýsti í síðustu viku eftir tilboðum í fyrsta áfanga breikkunar hringvegarins á rúmlega fjögurra kílómetra kafla frá Varmhólum að Vallá á Kjalarnesi.
Í útboðslýsingu er gert ráð fyrir hringtorgi við Móa og undirgöngum við Varmhóla og Saltvík, auk hliðarvega og stíga.
Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Veitna og Gagnaveitu Reykjavíkur.
Breikka á núverandi tveggja akreina veg í 2+1 veg með aðskildum akbrautum. Í verkinu felst hringtorg, tvenn undirgöng úr stálplötum, áningarstaður, hliðarvegir og stígar.
Fergja á vegstæði og framtíðarstæði stíga meðfram hliðarvegum. Verkinu tilheyra ræsi, regnvatnslagnir, veglýsing, lagnir fyrir upplýsingakerfi Vegagerðarinnar og breytingar á lögnum veitufyrirtækja.
Verkinu skal að fullu lokið fyrir júní 2023.
Heimild: Skessuhorn.is