Home Fréttir Í fréttum Akureyri: Hönnun á nýjum heilsugæslustöðvum fer senn í gang

Akureyri: Hönnun á nýjum heilsugæslustöðvum fer senn í gang

333
0
Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Gert er ráð fyrir að hönnun tveggja nýrra heilsugæslustöðva á Akureyri geti hafist fljótlega. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands er bjartsýnn á að þær verði tilbúnar árið 2023.

Ný heilsugæslustöð á Akureyri hefur lengi verið á döfinni enda er starfsemin í úreltu húsnæði sem stenst ekki nútímakröfur. Í apríl auglýstu Ríkiskaup eftir húsnæði til langtímaleigu. „Niðurstaðan af þeirri markaðskönnun var sú að það væri ekki til heppilegt húsnæði fyrir heilsugæsluna þannig að raunin varð sú að það þarf að byggja nýjar heilsugæslustöðvar,“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN.

<>

Fengu 100 milljónir í hönnunarvinnu

Tvær heilsugæslustöðvar verða byggðar, ein norðurstöð og ein suðurstöð. Jón Helgi segir frumathugun og skipulagsvinnu í gangi sem eigi að taka fljótt af og þá sé hægt að hefja hönnun. Á fjáraukalögum fékk Heilbrigðisstofnun Norðurlands eystra úthlutað 100 milljónum sem eiga að nýtast í hönnun nýrra stöðva. Staðsetning hefur ekki verið ákveðin, en líklegast þykir að tjaldsvæðisreitur við Þórunnarstræti og óbyggð lóð við Skarðshlíð verði fyrir valinu.

Nauðsynlegir innviðir

„Báðar þessar stöðvar þurfa að vera í kringum 1700-1800 fermetrar, það liggur nú ekki nákvæmlega fyrir hvað það kostar en það er umtalsverð fjárhæð,“ segir Jón Helgi. Áður hefur komið fram að kostnaður geti verið á annan milljarð. Hann segir fjármagnið ekki tryggt en er bjartsýnn á að það skili sér á næstu fjárlög, enda rími verkefnið vel við áherslu stjórnvalda á að byggja upp innviði.

Bylting fyrir starfsfólk og íbúa

Hann sér fram á byltingu í starfsumhverfi starfsfólksins og í þjónustu við íbúa. Nýtt húsnæði muni styrkja heilsugæsluna á Akureyri gríðarlega enda verði það hannað með tilliti til þeirra þarfa sem þar séu. Mönnun heilsugæslunnar á Akureyri hefur ekki verið fullnægjandi í langan tíma en hann telur að með bættraðstöðu geti það breyst.

Hvenær má reikna með að stöðvarnar verði tilbúnar? „Ætli það sé ekki í fyrsta lagi 2022 en líklega 2023,“ segir Jón Helgi.

Heimild: Ruv.is