Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir legið niðri í ár vegna dýptar mýrarinnar

Framkvæmdir legið niðri í ár vegna dýptar mýrarinnar

746
0
Mynd: RÚV
Framkvæmdir við nýtt knatthús í Vetrarmýri í Garðabæ hafa legið niðri í um ár.
Bærinn leitar nú leiða til að koma til móts við verktakann en mýrin er dýpri og meiri en áætlað var og framkvæmdin því kostnaðarsamari.

Verksamningur milli Garðabæjar og Íslenskra aðalverktaka um byggingu nýs íþróttahúss í Vetrarmýri í Garðabæ var undirritaður í lok árs 2018 en samkvæmt honum eiga verklok að vera í apríl á næsta ári. Framkvæmdir hafa hins vegar legið niðri í ár.

<>

Verktakinn telur Garðabæ ekki hafa komið til skila upplýsingum um jarðvegsaðstæður í útboðslýsingunni, mýrin sé margfalt dýpri en áætlað var – allt að átján metrar, og því hafi kostnaður við grundun hússins verið vanmetinn.

Samningaviðræður hafa staðið yfir síðustu vikur um leiðir til að koma til móts við verktakann. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, vildi ekki veita viðtal að svo stöddu en segir þó að framkvæmdir eigi að hefjast aftur á næstu vikum.

Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi og formaður Garðabæjarlistans sem er í minnihluta bæjarstjórnar, segir ljóst að ákvörðun um að byggja mannvirkið í mýri hafi skapað vandamál. Þá hafi mikil töf áhrif á íbúðabyggingu á svæðinu.

„Þessi framkvæmd er náttúrulega alveg meiriháttar kostnaðarsöm. Þetta er framkvæmd upp á 4,5 milljarð og nú liggur fyrir að verktaki telur hana enn dýrari og það er vont mál,“ segir Sara.

„Það er í skipulagi mikilvæg uppbygging á þessu svæði sem hangir með framkvæmdum þarna og lóðasalan átti að dekka hluta íþróttahússins. Það er því mjög vont mál þegar framkvæmd sem þessi hefur tafist í allt of langan tíma,“ segir hún.

Í Hnoðraholti við Vífilsstaðavatn eiga að rísa á annað þúsund íbúðir. Gunnar segir tafirnar ekki hafa áhrif á fyrirhugaða íbúðabyggð.

Heimild: Ruv.is