Home Fréttir Í fréttum Vill reisa allt að 50 vindmyllur á Fljótsdalsheiði

Vill reisa allt að 50 vindmyllur á Fljótsdalsheiði

379
0
Mynd: Mannvit - Klausturselsvirkjun

Allt að 250 MW vindorkuver, sem norsk-íslenskt fyrirtæki áformar að reisa á Fljótsdalsheiði, gæti á fullum afköstum framleitt yfir þriðjung af afli Kárahnjúkavirkjunar. Framkvæmdastjórinn segir aðstæður á heiðinni mjög ákjósanlegar enda liggi háspennulínur um svæðið.

<>

Ferðamenn sem skoða Stuðlagil frá bænum Grund gætu rekið augun í vindmyllurnar á leið niður að gilinu.

Mikill áhugi er á því að reisa vindorkuver á Íslandi en 34 vindmyllugarðar hafa verið tilkynntir inn til næsta áfanga rammaáætlunar. Einn sá stærsti er 250 megavatta vindorkuver í landi Klaustursels á Fljótsdalsheiði.

Það er fyrirtækið Zephyr í Noregi sem áformar að reisa þar 7-12 vindmyllur og framleiða 40-60 MW í fyrsta áfanga og fimmfalda framleiðsluna með tíð og tíma.

Fjárfestingafélagið Hreyfiafl á hlut í íslenska dótturfélaginu en það er ráðandi í eigu Zehyr í Noregi. Það er hins vegar í óbeinni eigu norskra sveitarfélaga og fylkja í gegnum norsk vatnsaflsfyrirtæki. Zephyr hyggst mæla vind á heiðinni og hefur fengið leyfi til þess hjá sveitarfélaginu.

Raflínur liggja um svæðið
Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr Ísland, segir að það auki líkur á að verkefnið verði að veruleika að Kröflulína 2 liggi um svæðið.

„Sú lína liggur meðal annars í gegnum jörðina Klaustursel og nýja línan mun liggja í rauninni við hliðina á þessari. Aðstæðurnar virðast vera á ýmsu leyti mjög góðar. Vindaðstæðurnar flutningskerfið og það eru stórir raforkukaupendur í nágrenninu þannig að við erum bjartsýn með það að þarna geti verkefni orðið að veruleika.

Jörðin Klaustursel er mjög landmikil og stór jörð og þarna er fræðilega séð pláss fyrir geysilega stóran vindmyllugarð. Í rauninni enn þá stærri en þann sem við höfum tilkynnt inn.“

Ekki langt frá Stuðlagili
Í skýrslu um tilhögun Klausturselsvirkjunar sem send var Orkustofnun segir. „Engin friðlýst svæði, náttúruverndarsvæði né vatnsverndarsvæði munu vera innan virkjunarsvæðisins.

” Í skýrslunni er skýringarmynd af því hvaðan vindmyllurnar kæmu til með að sjást. Að minnsta kosti hluti þeirra myndi sjást frá bænum Grund á Efri-Jökuldal en þaðan liggur stígur niður í Stuðlagil sem er vinsælt hjá ferðamönnum.

Ljóst er að á næstu árum er aðeins þörf fyrir brot af þeirri raforku sem áhugi áætlað er að framleiða með 34 nýjum vindorkuverum. Spurningin er hvort öll þessi áform kalli á sæstreng frá Íslandi. Ketill segir að það sé ekki forsenda fyrir uppbyggingu Zephyr. „Okkar verkefni miðast við þann raunveruleika sem við erum í.

Það er að segja; íslenski raforkumarkaðurinn er aflokaður. Eins og staðan er erum við eingöngu að horfa á Íslenska markaðinn en við vitum auðvitað ekkert frekar en aðrir hvort að einhvern tíma í framtíðinni verði það öðruvísi,“ segir Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr Ísland.

Heimild: Ruv.is