Home Fréttir Í fréttum Gjörbreytt aðstaða með nýju siglingahúsi Nökkva

Gjörbreytt aðstaða með nýju siglingahúsi Nökkva

208
0
Teikningar af siglingarhúsi Nökkva Mynd: AVH

Vonast er til að nýtt hús fyrir siglingaklúbbinn Nökkva á Akureyri verði tilbúið haustið 2021. 230 milljónir króna fara í framkvæmdina sem mun gjörbreyta aðstöðu félagsmanna.

<>

Nýtt hús fyrir Nökkva verður boðið út innan tveggja mánaða. Húsið verður um 330 fermetrar að grunnfleti og 426 fermetrar með lofti. Þar verður bátahús, verkstæðisaðstaða, búningsaðstaða og rými fyrir starfsfólk.

230 milljóna króna framkvæmd
Í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar var gert ráð fyrir 150 milljónum í verkefnið en kostnaðargreining leiddi í ljós að framkvæmdin myndi kosta um 230 milljónir.

Bæjarráð samþykkti því 80 milljóna króna viðbótarfjárveitingu í síðustu viku. 130 milljónir fara í verkefnið á þessu ári og 130 á því næsta.

Mynd: AVH

Engin búningsaðstaða og ein sturta
Árið 2014 gerðu Akureyrarbær og Nökkvi samning um að byggð yrði ný félagsaðstaða. Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður frístundaráðs segir að verið sé að fylgja því eftir. Þetta verði fyrsti hluti og möguleiki sé á að bæta kaffihúsi og sal við húsið síðar meir.

Það sé ekki nokkur spurning að aðstaða félagmanna muni gjörbreytast, hún sé nú í litlum sumarbústöðum og bátarnir geymdir hingað og þangað um bæinn. Þar sé ein sturta og krakkarnir þurfi að fara blautir heim þar sem búningsaðstaða sé engin. Það sé algörlega óviðunandi.

Siglingakúbburinn Nökkvi árið 2018

Barist fyrir betri aðstöðu í rúm 20 ár
Anna Hildur vonast til að fleiri taki þátt í starfi siglingaklúbbsins með bættri aðstöðu. Í Nökkva sé gríðarlega öflug starfsemi og á sumrin sé haldið hvert námskeiðið á fætur öðru sem hundruð barna sæki.

Tryggvi Jóhann Heimisson formaður Nökkva fagnar þessum tíðindum. Félagið hafi beðið eftir þessu síðan 1988 svo baráttan hafi verið löng. Vonast er til að húsið verði tilbúið haustið 2021.

Heimild: Ruv.is