Lægstu tilboð voru vel undir áætluðum verktakakostnaði í sex útboðsopnunum af átta hjá Vegagerðinni í gær, eða á bilinu 75-90 prósent af áætlun. Í tveimur opnunum reyndust lægstu boð yfir kostnaðaráætlun. Meðal annars var verið að opna tilboð í fyrstu verkin á flýtilista Alþingis um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, sem samþykkt var í lok marsmánaðar.
Stærsta útboðið, sem opnað var, er tvöföldun Suðurlandsvegar norðan Rauðavatns í Reykjavík, frá Vesturlandsvegi að Bæjarhálsi og Hádegismóum. Fimm tilboð bárust og reyndust öll undir áætluðum verktakakostnaði upp á 491 milljón króna. Lægsta boð kom frá Óskataki ehf. í Kópavogi, upp á 402 milljónir króna, eða 82 prósent af áætluðum kostnaði. Næstlægsta boð átti Ístak, upp á 450 milljónir króna, eða 92 prósent af áætluðum kostnaði.
Næst stærsta útboðsverkið er malbiksyfirlagnir á Norður- og Austursvæði árið 2020. Þar bárust þrjú tilboð og voru öll einnig undir kostnaðaráætlun upp á 320 milljónir króna. Lægsta boð átti Malbikun Akureyrar, upp á 265 milljónir króna, eða 83 prósent af áætlun.
Þriðja stærsta verkið er gerð sandfangara fyrir Hornafjarðarhöfn, 205 metra langs garðs milli Einholtskletta og Suðurfjöru. Tvö tilboð bárust, það lægra frá JG-vélum í Reykjavík upp á 179 milljónir króna, og reyndist það 90 prósent af 199 milljóna króna kostnaðaráætlun.
Í lagningu slitlags á Hamarsveg í Gaulverjabæ í Flóa átti Borgarverk ehf. í Borgarnesi lægsta boð, 69 milljónir króna, eða 76 prósent af áætlun en öll þrjú tilboðin reyndust undir henni.
Flest tilboðin, eða níu talsins, bárust í kantlýsingu fyrir Hvalfjarðargöng. Þar bauð Orkuvirki ehf. í Reykjavík lægst, eða 52 milljónir króna, sem reyndist 76 prósent af 69 milljóna króna kostnaðaráætlun.
Í gerð varnargarðs gegn Kötluhlaupum austan Víkur í Mýrdal bárust tvö tilboð, það lægra frá Framrás ehf. í Vík, 44 milljónir króna, eða 82 prósent af 54 milljóna króna áætlun, en það hærra var frá Snilldarverki ehf. í Riddaragarði á Hellu, upp á 49 milljónir króna, eða 92 prósent af áætlun.
Verkin tvö sem fengu tilboð yfir áætluðum verktakakostnaði eru: Viðgerðir á malbikuðum slitlögum 2020-2022 á Vestursvæði, en þar átti Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas í Hafnarfirði lægra boð af tveimur, upp á 29 milljónir króna, eða 119 prósent af 24 milljóna króna áætlun. Hitt verkið er stækkun ferjubryggju í Flatey á Breiðafirði ásamt sjóvörn. Þar átti Bryggjuverk í Keflavík lægra boðið, 45 milljónir króna, sem er 125 prósent af 36 milljóna króna áætlun.
Loks má nefna að fyrr í mánuðinum voru opnuð tilboð í gerð nýs 2,6 kílómetra vegarkafla í Ísafjarðardjúpi, um Hattardal í Álftafirði, sunnan Súðavíkur, ásamt smíði 17 metra langrar brúar. Þrjú tilboð voru öll yfir áætluðum verktakakostnaði, upp á 226 milljónir króna. Lægsta boð kom frá Tígri ehf. í Súðavík, 242 milljónir króna, sem var 107 prósent af áætlun.
Heimild: Visir.is