Home Fréttir Í fréttum Landsbankinn byggir nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfn

Landsbankinn byggir nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfn

216
0

Landsbankinn hefur tekið ákvörðun um að ráðast í nýbyggingu við Austurhöfn í Reykjavík. Markmiðið er að bæta þjónustu við viðskiptavini og draga verulega úr kostnaði, óhagræði og rekstraráhættu. Byggingin mun hýsa alla miðlæga starfsemi bankans og með henni næst fram umtalsverð hagræðing. Áætlanir gera ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður vegna húsnæðis lækki um 700 milljónir króna og að fjárfestingin borgi sig upp á um tíu árum. Haldin verður hönnunarsamkeppni um húsið í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og kallað eftir hugmyndum um nýtingu á gamla bankahúsinu við Austurstræti 11.

<>

Starfsemi Landsbankans í Reykjavík fer fram í mörgum húsum víða í borginni. Þar af eru fjórtán hús í Kvosinni og aðeins fjögur þeirra í eigu bankans. Leigusamningar eru flestir til skamms tíma, á bilinu 1-3 ár. Að auki rekur bankinn miðlæga starfsemi að Álfabakka og í Borgartúni og geymslur og stoðþjónustu á þremur öðrum stöðum. Nánast öll þessi starfsemi verður færð undir eitt þak í nýrri byggingu.

Með nýbyggingu næst fram mun betri nýting á húsnæði en nú er. Landsbankinn rekur starfsemi á tæplega 29 þúsund fermetrum á höfuðborgarsvæðinu en nýbyggingin verður um 14.500 m2 auk 2.000 m² í kjallara fyrir tæknirými og fleira. Með þessu fækkar fermetrum undir starfsemi bankans á þessu svæði um allt að 46%. Þá er gert ráð fyrir að allt að 2.500 m² í nýbyggingunni verði nýttir undir aðra starfsemi. Þannig verða 14.000 m² nýttir fyrir Landsbankann í nýbyggingunni. Þá verður bílakjallari undir húsinu sem nýtist öllu svæðinu við Austurhöfn.

Nýbygging Landsbankans

Hugmyndagátt um nýtingu Austurstrætis 11

Austurhöfn besti kosturinn

Landsbankinn hefur með aðstoð sérfræðinga skoðað margar lóðir á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum og reyndist lóðin í Austurhöfn besti og hagkvæmasti kosturinn að mati bankans. Stærð lóðarinnar er hentug miðað við þarfir bankans og verð hennar í útboði var hagstætt, meðal annars þar sem jarðvinnu er að mestu lokið og að gatnagerðagjöld voru innifalin. Að auki má nefna góðar tengingar við almenningssamgöngur og möguleika á samnýtingu bílastæða á svæðinu sem sparar umtalsverðar fjárhæðir í byggingarkostnaði. Með því að byggja á þessum stað verður Landsbankinn áfram með starfsemi í miðborg Reykjavíkur og styður við öfluga og fjölbreytta atvinnustarfsemi í miðbænum.

 

Sterk fjárhagsleg rök

Kostnaður við byggingu nýs húss Landsbankans við Austurhöfn með lóðarkaupum er áætlaður um átta milljarðar króna. Áætlað er að fjárfestingin borgi sig upp á um tíu árum frá því að húsið er tekið í notkun. Ef bankinn yrði áfram á sama stað þyrfti að leggja í umtalsverða fjárfestingu við núverandi húsnæði. Við flutning starfseminnar mun bankinn að auki selja fasteignir fyrir vel yfir einn milljarð króna. Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður húsnæðis lækki um 700 milljónir króna á ári. Núvirtur ávinningur af flutningi bankans í nýtt húsnæði við Austurbakka er metinn 4,3 milljarðar króna og innri raunávöxtun 8,3% (IRR) sem er töluvert yfir vegnum fjármagnskostnaði bankans. Arðsemismat Landsbankans hefur verið yfirfarið og staðfest af KPMG.

Samkeppni um hönnun nýbyggingar

Landsbankinn kynnir í ágúst samkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands um hönnun nýbyggingarinnar. Lögð verður áhersla á að hanna fallega, hagkvæma og vistvæna byggingu sem hægt verður að þróa í takt við breytingar á starfsemi og umsvifum bankans. Byggingin skal vera borgarprýði og falla vel að umhverfinu. Hönnunarsamkeppnin verður opin og fer fram í tveimur þrepum. Gögn verða aðgengileg mánudaginn 17. ágúst. Áætlað er að niðurstöður úr samkeppninni liggi fyrir í febrúar 2016.

Hugmyndagátt opnuð um nýtingu Austurstrætis 11

Það er Landsbankanum kappsmál að gamla Landsbankahúsið við Austurstræti 11 fái verðugt hlutverk í almannaþágu til framtíðar. Sú bygging er hluti af sögu byggingalistar hér á landi og eitt helsta kennileiti miðborgar Reykjavíkur. Þess vegna verður leitað út fyrir bankann eftir hugmyndum og tillögum um framtíð hússins. Opnuð hefur verið hugmyndagátt á vef Landsbankans og verður hún opin til þriðjudagsins 25. ágúst. Allir geta sent inn hugmyndir sínar um hvernig best er að nýta þetta glæsilega hús.

Nýbygging Landsbankans

Hugmyndagátt um nýtingu Austurstrætis 11

Heimild: Landsbankinn