Home Fréttir Í fréttum Veðrið hefur haft áhrif á framkvæmdir í Ólafsdal í vetur

Veðrið hefur haft áhrif á framkvæmdir í Ólafsdal í vetur

148
0
Fjósið í Ólafsdal. Veðrið hefur aðeins verið erfitt fyrir framkvæmdir á svæðinu. Ljósm. sá.

„Við höfum svo sem alveg verið að halda hálfum dampi í vetur,“ segir Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar, spurður hvernig framkvæmdir í Ólafsdal gangi.

<>

Veðrið hefur sett strik í reikninginn í framkvæmdunum við Gilsfjörð eins og víða annars staðar á landinu í vetur.

Að framkvæmdum hafa að mestu komið heimamenn úr Dölum og frá Stykkishólmi.

„Við vorum þarna með mannskap í veðrinu umtalaða í desember en urðum frá að hverfa því Kári fór þannig með okkur að allt varð rafmagnslaust, eins og víða,“ segir hann.

Lítið var um framkvæmdir í Ólafsdal í upphafi árs en farnar voru tvær ferðir í febrúar.

„Við erum búin að róa okkar aðeins núna fram í apríl en þá verður fáninn dreginn að húni á ný og haldið af stað,“ segir Þorsteinn og bætir því við að frá lokum síðasta árs hefur verið unnið að fjórum verkþáttum.

„Unnið hefur verið að viðgerð á gamla skólahúsinu að utan, eina húsinu sem stóð uppi af þeim hátt í 20 húsum sem Torfi skildi þar eftir sig.

Síðan höfum við verið að vinna við Mjólkurhúsið og Fjósið, endurhlaða það og lagfæra og kom yfir það þaki. Til viðbótar höfum við sett upp geymsluskemmu sem nýtist núna í framkvæmdunum og í rekstri á svæðinu í framhaldinu.

Skemman verður jörðuð getum við sagt, því þetta er nýbygging sem við viljum ekki hafa mjög áberandi í þessu gamla umhverfi sem þarna er,“ segir Þorsteinn.

Heimild: Skessuhorn.is