Home Fréttir Í fréttum Rangfærslur um breytingar í ráðhúsi Árborgar

Rangfærslur um breytingar í ráðhúsi Árborgar

149
0
Selfoss Mynd: Hlöðver Þorsteinsson, Eyrarbakka.

Breytingar á húsnæði ráðhúss Árborgar eru með öllu óskyldar þeirri ákvörðun að leggja nýjan dúk á gólf bókasafnsins.

<>

Það eru því helber ósannindi að 5 milljónir hafi orðið að 100. Þeir sem stýrt hafa þeirri umfjöllun geta ekki borið við vanþekkingu, heldur er um hreinar rangfærslur að ræða.

Bæjarstjórn hefur alls samþykkt 79 milljónir króna í þessi verkefni, að dúknum meðtöldum, og var áfallinn kostnaður um 65 m.kr. þegar núverandi umfjöllun hófst, með fyrirspurn í bæjarráði 23. janúar síðastliðinn.

Fjallað var um fyrirhugaðar breytingar í bæjarstjórn í febrúar og mars 2019 og fjárheimildir samþykktar í október og desember 2019 vegna framkvæmda áranna 2019 og 2020.

Ítarlegri skýringar – fyrir áhugasama
Í mars 2019 voru kynntar í bæjarstjórn tillögur bæjarstjóra um aðgerðir á grunni úttektar Haraldar L. Haraldssonar. Þar voru um 130 tillögur og skýrslan sjálf einnig mikið lesefni enda starfsemi sveitarfélaga umfangsmikil. Vinna bæjarfulltrúa við yfirferð málsins hefur því verið mikil.

Nr. 131. Húsnæði Ráðhússins.
Lagt er til að skoðað verði að endurskipuleggja fyrirkomulag í Ráðhúsinu með hliðsjón af framangreindum tillögum og Ráðhúsið verði sem mest í opnu rými.

Þetta þarf að vinna með arkitektum og skoða nýtingu Ráðhússins í leiðinni. Tillögur varðandi þetta mál ættu að liggja fyrir við gerð fjárhagsáætlunar haustið 2019 (sbr. tillaga 129).

Nr. 129. Staðsetning þjónustuvers.
Lagt er til að skoðað verði með að flytja þjónustuverið niður á fyrstu hæð í Ráðhúsinu og þjónustuverið deili hæðinni að hluta með bókasafninu.

Þetta þarf að vinna með arkitektum og skoða nýtingu Ráðhússins í leiðinni. Tillögur varðandi þetta mál ættu að liggja fyrir við gerð fjárhagsáætlunar haustið 2019.

Á 10. fundi bæjarstjórnar þann 20. mars 2019, var bókað í fundargerð: Tillaga bæjarstjóra að aðgerðaráætlun, samkvæmt ósk bæjarstjórnar. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, tók til máls og lagði fram til kynningar og fylgdi úr hlaði tillögu um aðgerðaráætlun vegna tillagna Haraldar L. Haraldssonar.

Tillögurnar í heild voru birtar sem viðhengi undir 8. lið fundargerðarinnar á vef Árborgar, þar sem þær eru öllum aðgengilegar.

Úrvinnsla tillagna um ráðhús
Á grundvelli ofangreindra áforma unnu arkitektarnir. Þeir lýstu því í upphafi að heildarendurskoðun fyrirkomulags í ráðhúsi væri yfirgripsmikið verk. Ef slíkar breytingar kæmu allar til framkvæmda á næstu árum eða áratug þá gæti heildarkostnaður numið 300-400 milljónum króna.

Í samræmi við þetta lá ljóst fyrir að hönnun gæti hæglega kostað 18,5 milljónir króna, en jafnframt var vitað að mjög erfitt væri að sjá fyrir með nákvæmum hætti umfang og kostnað vegna slíkrar hönnunar. Hönnun stendur nú í 15,6 m.kr.

Samkvæmt lögum um opinber innkaup, nr. 120/2016, með vísan í 29. grein, er heimilt að gera einstaka samninga fyrir allt að 60 milljónir króna, án útboðs, vegna verkefnis af þessari stærð.

Algengt er að slíkt sé gert þegar kemur að hönnun, enda er hún grundvöllur annarra kostnaðaráætlana vegna verksins.

Bæjarfulltrúi D-lista lét einmitt hafa eftir sér á RÚV að það ætti að byrja á því að hanna áður en farið er í framkvæmdir – og þannig var þetta unnið.

Þau einingaverð sem samið var um við arkitekta og unnið hefur verið eftir eru hagstæð, um 15% lægri en algengt er og um 7% lægri en að jafnaði er í rammasamningi Ríkiskaupa.

Verkið hefur verið unnið eins og til var ætlast. Búið er að hanna fjölda möguleika til framtíðar á öllum fjórum hæðum ráðhússins og liggja þær lausnir til reiðu fyrir bæjarstjórn, sem getur tekið ákvarðanir, nú eða síðar á grunni þeirra.

Þáttur gólfdúksins
Þann 12. júní 2019 upplýstu starfsmenn bæjarstjóra um að búið væri að kaupa dúk á gólf bókasafnsins og að hann væri kominn á svæðið, af þeim ástæðum þyrfti að loka bókasafninu einhvern tíma sumars.

Fram að þeim degi var bæjarstjóra ókunnugt um dúkinn, sem 5 m.kr. fjárheimildir var fyrir. Dúkurinn hafði þá ekki haft nein áhrif á umfjöllun og undirbúning vegna annarra framkvæmda.
Nú voru góð ráð dýr!

Átti að leggja dúkinn, með tilheyrandi umstangi, og horfa fram hjá því að stefndi í færslu á þjónustuveri niður í bókasafn strax árið eftir? Fyrir sveitarfélagið hefði það haft í för með sér aukinn kostnað og tvíverknað að leggja dúkinn án þess að spá í fyrirliggjandi flutninga þjónustuvers á sama stað.

Niðurstaðan varð sú að flytja þjónustuverið, á grunni þeirrar hönnunar sem þegar lá fyrir. Áréttað var að bæjarráð, sem gegnir hlutverki bæjarstjórnar yfir sumarið, þyrfti að fá kostnaðaráætlun áður en framkvæmdir hæfust, þannig að samþykkja mætti verkefnið formlega. Framlagning kostnaðaráætlunar dróst, bókasafninu var lokað og verktakar hófust handa.

Samþykkt fjárheimilda vegna framkvæmdar
Þann 20. nóvember 2019 lét framkvæmda- og tæknideild Árborgar hefja framkvæmdir á 2. hæð ráðhússins á grunni samþykktar bæjarstjórnar um fjárheimildir, en deildin tók á haustmánuðum við verkefnisstjórn breytinga í ráðhúsinu. Í október veitt bæjarstjórn auk þess formlega fjárheimild fyrir framkvæmdunum á 1. hæð.

Samþykkt fjárheimilda eftir að verkefni hefjast hefur því miður tíðkast hjá sveitarfélögum á Íslandi um áratugi, en á undanförnum árum hafa sveitarfélögin, Sambandið og Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga unnið að úrbótum á því.

Sveitarfélagið Árborg hefur í þessum efnum tekið stórstígum framförum og árið 2019 voru þessi mál í betra horfi hjá sveitarfélaginu en nokkru sinni fyrr, þó svo að í þessu máli hefði átt að gera betur.

Úttekt á framkvæmdum
Mikið hefur verið reynt til að snúa út úr öllu sem viðkemur yfirstandandi framkvæmdum víðsvegar í sveitarfélaginu.

Sú heildarúttekt á framkvæmdum, sem bæjarstjórn hefur ákveðið að fari fram, mun leiða í ljós að vandað er til verka, hagsmunir sveitarfélagsins eru hafðir að leiðarljósi og að framfarir hafa orðið í verkefnastjórnun hjá sveitarfélaginu.

Við hlökkum til að taka þátt í þeim úrbótum sem enn má gera á grunni úttektarinnar.

Heimild: Dfs.is