Á næstu tíu árum verður framkvæmdum flýtt fyrir 27 milljarða króna, bæði hvað varðar framkvæmdir í flutnings- og dreifikerfi raforku og í ofanflóðavörnum til að tryggja öryggi fólks um allt land ef sambærilegt veður, og gekk yfir Norðurland í desember, kemur upp.
Meðal annars verði jarðstrengjavæðingu dreifikerfis flýtt til 2025 í stað 2035, framkvæmdum í svæðisflutningskerfi raforku sem ekki er á 10 ára kerfisáætlun verði flýtt, leyfisveitingar vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku verði einfaldaðar og skilvirkni aukin, varafl fyrir raforku og fjarskipti verði endurskilgreint og eflt og stefnt er að því að uppbyggingu ofanflóðavarna verði lokið árið 2030.
Þetta eru tillögur átakshóps sem ríkisstjórnin skipaði um úrbætur á innviðum í kjölfar fárviðrisins. Um er að ræða samtals 540 aðgerðir, þar á meðal 192 nýjar.
amkvæmt mati hópsins mun heildarfjárhæð framkvæmda hins opinbera og innviðafyrirtækja nema um 900 milljörðum króna á næstu árum. Niðurstöður átakshópsins voru kynntar á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum nú fyrir skömmu. Um var að ræða samstarf sex ráðuneyta.
Óveðrið afhjúpaði ýmsa veikleika
Veðrið olli miklu tjóni. Samgöngur stöðvuðust og atvinnulífið lamaðist á þeim svæðum sem urðu verst úti. Miklar truflanir urðu í flutnings- og dreifikerfi raforku sem hafði afleidd áhrif á fjarskiptakerfi og leiddi til sambandsleysis við umheiminn á stórum svæðum. Tekið var dæmi um fjölskyldu á Norðurlandi með sjö mánaða gamalt barn sem hafði ekki rafmagn dögum saman og missti allt samband við umheiminn. Hitastig hússins var komið niður í sjö gráður og fjölskyldufaðirinn neyddist til að skríða upp á veg til að ná símabandi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á fundinum að veðrið hefði afhjúpað ýmsa veikleika í innviðum landsins, en að sama skapi sannreynt ýmsa styrkleika þeirra. Nú væru mikil tækifæri til að opna fyrir aukna opinbera fjárfestingu, en gerð verður frekari grein fyrir fjármögnun framkvæmdanna í fjármálaætlun ríkisins.
Aðgerðaáætlun átakshópsins má finna á hér.
Heimild: Mbl.is